Engilbert í Einarsstofu.

26.04.2012
Í framhaldi af sýningu á verkum Ragnars Engilbertssonar sýnum við nú valdar myndir úr eigu Vestmannaeyjabæjar eftir föður Ragnars, Engilbert Gíslason.
 
Engilbert var meðal ástsælustu listamanna Vestmannaeyja og braut í blað í sögu myndlistar hér í Eyjum og víðar. Engilbert Gíslasonfæddist í Vestmannaeyjum 12. október 1877 og komu listrænir hæfileikar hans snemma í ljós. Sjálfur segir hann frá því í viðtali er hann barn að aldri var að leika sér að því að teikna myndir fyrir gesti og gangandi. Komu þar stúdentar tveir erlendir til hans og urðu svo hrifnir af myndum hans að þeir keyptu þær gegn loforði um að senda litakassa er heim kæmi. Stóðu þeir við loforðið og komst Engilbert þá í fyrsta sinn í kynni við vatnslitina.
Árið 1899 sigldi hann til Kaupmannahafnar til að læra málaraiðn og var hann fyrsti Íslendingurinn sem gerði þá iðngrein að ævistarfi. Á Kaupmannahafnarárunum kynntist hann Ásgrími Jónssyni listmálara og Einari Jónssyni mynd-höggvara, en þeir voru þar við nám og störf. Varð með þessum listamönnum ævilöng vinátta. Í 3 ár nam Engilbert iðn sína og eftir það vann hann hjá meistara sínum 1 ár. Sagt er að oft hafi sorfið að hjá þeim félögum ytra, en með ítrasta sparnaði hafi þeir dregið fram lífið.
Að loknu námi árið 1903 fluttist Engilbert heim á ný og vann fyrst við að mála endurbætta Landakirkju en fluttist til Reykjavíkur eftir það og dvaldi þar næstu 6 árin. Til Vestmannaeyja fluttist hann aftur árið 1910 og vann þar við iðn sína æ síðan, auk þess sem hann sinnti ástríðu sinni, málaralistinni. Árið 1914 kvæntist Engilbert Guðrúnu Sigurðardóttur og eignuðust þau 7 börn, en 4 komust upp.
Málverk og teikningar Engilberts af náttúru Vestmannaeyja, atvinnuháttum, mannlífi svo og sögulegar myndir hans vöktu verðskuldaða athygli.  Ferill hans sem listamanns náði yfir 70 ár, en hann lést 7. desember 1971.
Að þessu sinni eru eingöngu sýnd verk í eigu Vestmannaeyjabæjar en vitað er að listaverk eftir Engilbert prýða fjölmörg heimili í Eyjum og víðar. Standa vonir til þess að síðar megi skrá þær og búa á þann hátt til heildarsýn um verk þessa mikla Eyjalistamanns. Munum við kalla eftir samstarfi um slíkt verkefni síðar.
Verið hjartanlega velkomin í Einarssofu.
Samstarfshópur um kynningu á myndlistararfinum í Vestmannaeyjum.