Sumardagurinn fyrsti í Einarsstofu
17.04.2012Á fimmtudag, Sumardaginn fyrsta, verður opið hús í Einarsstofu í Safnahúsinu kl. 13-17. Tilefnið er að þann dag eru rétt 150 ár liðin frá fæðingu Sveins Jónssonar elsta, trésmíðameistara (1862-1947). Sveinn var fæddur að Steinum undir Eyjafjöllum en byggði Sveinsstaði í Eyjum árið 1893 og bjó þar ásamt konu sinni, Guðrúnu Runólfsdóttur og 5 börnum. Sveinn og Guðrún slitu samvistir og flutti Sveinn í kjölfarið til Reykjavíkur þar sem hann varð einn stofnenda Völundar er hann var æ síðar við kenndur.
Starfsmenn Safnahúss munu sýna nokkra af þeim fjölmörgu munum sem tengjast Sveini og fjölskyldu hans þennan afmælisdag Sveins. M.a. verður dregið fram fágæta bókasafn sem Sveinn gaf Bókasafni Vestmannaeyja á sínum tíma og Haraldur Guðnason hélt ævinlega sem sérsafni honum til heiðurs. Sá vandaði fræðimaður sem Haraldur var kemst svo að orði um bókagjöf þessa: „Loks er þá ótalin mikil og dýrmæt bókagjöf Sveins Jónssonar trésmíðameistara og forstjóra, Reykjavík. ... Safn Sveins Jónssonar var ekki mjög stórt, 362 bindi, en þeim mun betra, því segja má, að hver bók hafi verið vandlega valin. Í þessu safni, sem er varðveitt sér í skáp, er talsvert fágætra bóka, sem safnið átti ekki áður, svo sem Rit Lærdómslistarfélagsins öll, Atli og Bóndi, búnaðarritin gömlu, Almanak þjóðvinafélagsins heilt frá upphafi og margt fleira fágætt, sem oflangt yrði að telja.“
Á veggjum verða listaverk eftir dóttur Sveins, Júlíönu Sveinsdóttur, eins kunnasta listamanns þjóðarinnar. Myndirnar eru flestar í einkaeigu afkomenda Sveins og Guðrúnar hér í Eyjum og hafa ekki komið fyrir almennings sjónir áður.
Þá mun kynnt fyrirhuguð dagskrá til heiðurs Sveini sem verður í haldin Safnahúsi mánudaginn 2. júlí nk. Þá helgi verður ættarmót afkomenda Sveins og Guðrúnar og verður dagskráin í kjölfar mótsins.
Verið hjartanlega velkomin í Safnahús Vestmannaeyja á Sumardaginn fyrsta.