að þreyja þorrann og góuna
Velkomin sértu, góa mín
27.02.2012Góa er fornt heiti á næstsíðasta mánuði vetrar og hefst jafnan á sunnudegi í átjándu viku vetrar eða á tímabilinu 18.-24. febrúar.
Að þessu sinni er fyrsti dagur góu 19. febrúar og er sá dagur nefndur konudagur. Gildir þá sú kvöð að vera eftirlátur við konu sína, en eftir standa þá 364-365 dagar í sjálfval um þau mál.
Árni Björnsson segir frá því í bók sinni "Saga daganna" hvernig Góa hefur oft verið persónugerð sem vetrarvættur í gömlum sögnum og þá ýmist sem dóttir Þorra eða eiginkona. Árni bendir einnig á að stundum hafi verið reynt að skjalla hana til að bæta veður en samkvæmt gamalli þjóðtrú átti sumarið að vera gott ef góa væri stormasöm og veður vont fyrsta góudag.
Góusýningin í Einarsstofu er einmitt hugsuð til að blíðka alla góða vætti í von um gott sumar og gott afmælisár í Safnahúsi. Á veggjum má sjá málverk og teikningar úr Listasafni Vestmanna-eyjabæjar og eitt handverk úr Byggðasafni. Verkin eru margvísleg en eiga það öll sameiginlegt að vera gerð af konum. Í skápum eru ritverk sem allflest eru eftir konur eða fjalla um konur, ásamt munum sem verið hafa í eigum kvenna.
Sýnishornið er vissulega aðeins sem dýft væri hendi í mikla gullkistu. Í tilefni góu hvetja starfsmenn hússins alla til að taka frá a.m.k. einn dag í góu til að kynnast hugar- og handverkum íslenskra kvenna.