MÁLVERKASÝNING opnar í Einarsstofu í anddyri Safnahússins

15.12.2011
 
fimmtudaginn 15.12.2011 kl. 16
 
 
Steinunn Einarsdóttir heldur einkasýningu á smámyndum sem hún hefur verið að vinna með undanfarið. Myndirnar eru allar litlar, 15x20 eða 15x15 sm og eru blanda af portret, landslagi og ýmsu öðru sem henni dettur í hug að mála í það og það skiptið. Hún segir það vera hvíld að skipta um viðfangsefni, sérstaklega með portret myndirnar sem taka mikla orku og einbeitingu. Hún segist hafa viljað mála fleiri portret myndir en vannst ekki tími til að þessu sinni.
 
Steinunn hefur haldið margar einka- og samsýningar síðan hún flutti heim frá Ástralíu í desember 1994. Henni reiknast til að sýningin muni vera 21. sýning hennar frá því hún kom heim. Hennar fyrsta sýning var einmitt í Safnahúsinu árið 1995 og var Jói á Hólnum (Jóhann Friðfinnsson, heitinn) helsti stuðningsmaður hennar þar sem hún var nýflutt heim og þekkti lítið til en Jói vann á þeim tíma á Byggðasafninu.
Steinunn býður alla háa sem lága velkomna á sýningu sína sem verður opin fram undir þrettándann. Sýningin er opin á venjubundnum opnunartíma safnanna í Safnahúsi.