Biblían og Gísli Þorsteinsson í Einarsstofu

07.12.2011

Ekki er lítið lagt undir í Einarsstofu á aðventunni, að tefla saman hinni helgu bók í ólíkum útgáfum og gömlum samstarfsmanni og vini Einars Sigurðssonar þess er Einarsstofa er við kennd. Þó er skömm óhófævin hér sem víðar, því um miðjan mánuðinn mun Steinunn Einarsdóttir ryðja hvorutveggja úr vegi og setja upp sýningu á andlitsmyndum úr Eyjum í bland við annan samtíning. Má vera að sum andlitin minni fremur á þrettándann en jólin, enda mun sýningin standa fram yfir jólalok.

 
Myndlistarsýning safnsins að þessu sinni er úr smiðju heimamanns. Gísli Þorsteinsson frá Laufási er einn þeirra er glæðir Listasafn Vestmannaeyja lífi og litum. Róbert Sigurmundsson í Prýði á heiðurinn af því að koma myndum hans í skjól safnsins og er það eitt margra vinarbragða hans við Safnahúsið.
Flestir Vistmannaeyinga muna Gísla, en þó er ekki víst að vitneskjan um málaraástríðu hans hafi verið almannaeign. Sagt er að Gísli hafi lítið vilja gera úr kunnáttu sinni og gjarna sagt að hann málaði eingöngu fyrir sjálfan sig. Enda mun það vera svo að Gísla er lengst minnst hér fyrir þátt sinn í atvinnuuppbyggingu Vestmannaeyja, á frjóum tímum er Eyjarnar breyttust úr fábrotinni verstöð í margþættan iðnaðarbæ. Hann var fæddur við upphaf umrótanna, nánar tiltekið 23. júní 1906 í Laufási, sonur hjónanna Þorsteins Jónssonar útvegsbónda þar og Elínborgar Gísladóttur. Ólst hann upp í stórum systkinahópi á heimili mikilla umsvifa. Gísli kvæntist árið 1940 Ráðhildi Árnadóttur og tóku þau að sér kjörson, Gísla Má rafmagnsverkfræðing. Þau slitu samvistir. Gísli andaðist 10. júlí 1987 á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja.
Gísli var lengi verkstjóri hjá Einari í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja. Seinna stofnaði Gísli Fiskiðjuna, ásamt þeim Ágústi Matthíassyni og Þorsteini Sigurðssyni. Varð það eitt öflugasta og afkastamesta frystihús landsins á þeim árum. Gísli var þekktur fyrir að fylgjast vel með öllum nýjungum og notfæra sér þær hugmyndir sem hann taldi vera hagkvæmar. Þessi eru hin ytri kjör mannsins að því er heimildir greina. Glaðvær gæfumaður virðist hann alla tíð hafa verið.
En Gísli átti sér aðra veröld, heim myndlistarinnar. Er ekki að efa að stundirnar hafa oft og tíðum verið stopular við listsköpun að loknum löngum og annasömum degi. Þó er hvergi að greina eftirsjá í verkum hans. Þvert á móti birtist okkur málarinn með barnshjartað, naívistinn af Guðs náð sem innblásinn af þjóðsögum og glaðsinna fjöri endurspeglar von mannsins eftir hreinleika bernskunnar. Það er gott að njóta Gísla Þorsteinssonar til að minna okkur á inntak jólanna.
Við höfum jafnframt dregið fram úrval Biblíuútgáfa safnsins sem er með ágætum, enda þótt elstu útgáfur vanti. Til eru þó tvær Guðbrandsbiblíur, en báðar í ljósprenti. Ljósprentin eru þó fágætari en margur gæti haldið – aðeins 500 ljósprent voru gefin út af þeirri einstöku bók. Elsta útgáfa Biblíunnar í safninu er frá 1747, svonefnd Waysenhússbiblía sem kennd er við prentstað sinn munaðarleysingjaheimilið Waysenhús í Kaupmannahöfn. Mun sú útgáfa vera hin fjórða útgáfa Biblíunnar. Þá taka við fjölmargar útgáfur sem einnig eru kenndar við prentstaðinn: Viðeyjarútgáfan frá 1841, m.a. fágæta eintak frá Ingólfi á Oddsstöðum, Reykjavíkurútgáfan frá 1859 og Lundúnarútgáfan frá 1866 úr fórum sjálfs Jóns í Gvendarhúsi svo helstar séu raktar. Þá er að finna á sýningunni elsta texta um jól á íslensku, úr Hómilíubókinni frá því um 1200. Liggur ljósprentuð síða opin þar sem fyrst er fjallað um jólin og uppskrift á textanum lögð hið næsta.
Þá sýnum við fjölda jólakorta úr hinu rómaða jólakortasafni Kristnýjar Ólafsdóttur er jafnan var kölluð Nýja og er vistað á Skjalasafninu. Úr Byggðasafninu koma munir úr fórum hannyrðakvennanna Guðbjargar Sigurþórsdóttur fyrrum samstarfsmanns og Ingibjargar Haraldsdóttur.
Það er því margt að sjá og lesendur Frétta eru hvattir til að líta við í Einarsstofu, en sýningin stendur fram undir miðjan mánuð.
Að lokum má geta þess að ritað er upp jólaguðspjallið úr ólíkum Biblíuútgáfum til að sýna hvernig sá mikli boðskapur hefur verið orðaður á ólíkum tímum og í ólíkri menningu. Fylgir hér að lokum jólaguðspjallið eins og það er prentað hið fyrsta sinn á íslensku, úr Guðbrandsbiblíu frá 1584.
 
 
Enn það bar til á þeim dögum að það boð gekk út frá keisaranum Augusto það heimurinn allur skyldi skattskrifast. Og þessi skattskrift hófst fyrst upp hjá Kyrino sem þá var landsstjórnari í Sýría. Og allir fóru að tjá sig hvör til sinnar borgar. Þá fór og Jóseph af Galilea úr borginni Nadsareht upp í Judeam til Davíðsborgar sú eð kallaðist Betlehem af því að hann var af húsi og kyni Davíðs að hann tjáði sig þar meður Maríu sinni festar konu óléttri.
Enn það gjörðist þá þau voru þar að þeir dagar fullnuðust eð hún skyldi fæða. Og hún fæddi sinn frumgetinn son og vafði hann í reifum og lagði hann niður í jötuna þvíað hún fékk ekkert annað rúm í gesta herberginu.
Og fjárhirðar voru þar í sama byggðarlagi um grandana [grendina] við fjárhúsin sem varðveislu og vöktu yfir hjörð sinni. Og sjá: Að engill Drottins stóð hjá þeim og Guðs birti ljómaði í kringum þá. Og þeir urðu af miklum ótta hræddir. Og engilinn sagði til þeirra: Eigi skulu þér hræðast. Sjáið: Eg boða yður mikinn fögnuð þann er sker öllum lýð því í dag er yður lausnarinn fæddur sá að er Kristur Drottins í borg Davíðs. Og hafið það til merkis, þér munut finna barnit í reifum vafið og lagt vera í jötuna. Og jafnskjótt þá var þar hjá englinum mikill fjöldi himneskra hirðsveita sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og mönnum góður vilji.