Ný listaverk á listaverkasafni Vestmannaeyjabæjar

02.11.2011
Þessa fallega handlitaða ljósmynd af Klettinum mun vera eftir sjálfan Loft Guðmundsson er þekktastur var sem brautryðjandi íslenskrar kvikmyndagerðar. Loftur var einn þekktasti og virtasti ljósmyndari landsins á fyrri hluta 20. aldar. Mynd þessi mun vera unnin árið 1924 og hefur líkast til verið brúðkaupsgjöf frú Ágústu Forberg (fædd Petersen) og Ólafs Magnússonar frá Sólvangi er gengu í hjónaband í Vestmannaeyjum 27. mars 1926. Ólafur Magnússon er einn þeirra Vestmannaeyinga sem sagan mun aldrei gleyma. Hann andaðist aðeins 27 ára að aldri úr berklum. Áður hafði þessi ungi maður komið víða við, verið einn af stofnendum Týs og félagsins Akóges. En lengst mun nafn hans lifa sakir þess þrekvirkis að stofna eigið blað og reka á þrjóskunni einni. Blaðið Víðir kom fyrst út árið 1928, ári síðar lagðist Ólafur veikur. En hann hélt áfram allt fram í andlátið að heygja sér efni í blaðið, leiðrétti og las prófarkir við hné sér í rúminu. Magnús faðir hans tók við merkinu þar til hann seldi blaðið Einari Sigurðssyni útgerðarmanni það skömmu fyrir andlát sitt. Ágústa og Ólafur eignuðust tvo syni, Magnús og Ólaf. Ólafur yngri eignaðist myndina og ekkja hans Erna Hermannsdóttir afhenti Vestmannaeyjabæ hana til varðveislu í október 2011. Í bréfi frá Ernu er fylgdi gjöf hennar segir hún: „Ég hef haft ánægju af því að hafa þessa mynd daglega fyrir augunum í meira en tuttugu ár en nú finnst mér tími til kominn að hún gleðji augu fólks í heimabyggð.“
 
 
Með miklu þakklæti er tekið við þessari gjöf. Hún er góð viðbót við listaverkasafn Vestmannaeyjabæjar er telur um 500 verk.
 
 
 
 
 
Víða liggja gersemar.
 
Á háalofti fundu afkomendur Halldórs Péturssonar listmálara þessa portrettmynd af Einar Sigurðssyni forstjóra. Halldór var árum saman einn frægasti skopmyndateiknari landsins og mynd eftir hann því sannkallaður hvalreki. Myndin er gerð árið 1969 eða 8 árum áður en bæði listamaður og fyrirmyndin önduðust, en þeir létust báðir hið sama ár 1977, Halldór 16. mars og Einar þann 22. mars. Myndin var seld safninu á afar sanngjörnu verði og var hið snarasta sett meðal mynda listaverksasafnsins.