Gjöf til Vestmannaeyja.
21.09.2011Hinn 14. september sl. hringdi Anna Snjólaug Haraldsdóttir til okkar á safninu og spurði hvort við vildum þiggja að gjöf þá fallegu mynd sem hér sést til hliðar.
Tjáði hún okkur að myndin væri eftir Engilbert Gíslason og kæmi úr búi föðurforeldra sinna, hjónanna Sigurðar Ingimundarsonar og Önnu Helgadóttur. Fædd voru þau í Stokkseyrarhreppi en bjuggu hér um tíma og var faðir Önnu og sonur þeirra Haraldur Sigurðsson fæddur í Eyjum 12. okt. 1912. Að sögn Önnu er líklegt að föðurforeldrar hennar hafi keypt myndina af Engilbert og hún eigi sér því ekki ríkari eigendasögu.
Að sjálfsögðu þökkuðum við og þökkum hjartanlega fyrir þessa höfðinglegu gjöf.
Vestmannaeyjabær á fjölda listaverka eftir Engilbert og hér hefur því enn bæst við í þann góða hóp.