Safnahúsið eftir þjóðhátíð

10.08.2011

Nóg er um að vera í safnahúsinu þessa dagana.

Eins og allir sjá er verið að flísaleggja safnahúsið að utan og búið er að skipta um glugga. Nóg að gera hjá iðnaðarmönnunum hér í húsinu.

Í Sagnheimum-byggðarsafni hefur verið mikið líf og fjör en tæplega 1400 gestir sóttu safnið í júlí. Búast má við því að það hægist aðeins um núna eftir þjóðhátíð en þá verður tíminn notaður til að bæta við safnið. Nú þegar hefur verið hafist handa við að gera messa sem verður vafalaust skemmtileg viðbót við þann veglega sess sem sjómennskan skipar á safninu.

Umhverfisverðlaun Vestmannaeyjabæjar voru veitt og var af því tilefni efnt til kaffisamsætis í safnahúsinu. Einnig var formleg mótttaka norrænar sendinefndar sem var hér á ferð á vegum innanríkisráðuneytisins.

Á Bókasafninu er nú fremur rólegt eins og oft eftir þjóðhátíð. Krakkarnir sem eru að taka þátt í sumarlestrarátakinu eru þó áfram svakalega dugleg og er lestrarormurinn þeirra komin hringinn í barnadeildinni og vel það. Í miðrýmið, Boston, höfum við týnt til gamlar og góðar kiljur sem henta svo vel í sumarfríið. Kiljurnar kosta aðeins 50kr.