Lestrarátak í 5.bekk vorið 2011

15.06.2011
Dagana 28.apríl - 20.maí s.l. tóku 5.bekkingar í GRV þátt í lestrarátaki í samvinnu við Bókasafn Vestmannaeyja. Að átakinu loknu mættu forsvarsmenn Bókasafnsins í skólann og veittu verðlaun.
Átakið byrjaði með heimsókn krakkanna á bæjarbókasafnið þar sem þau fengu smá tölu um mikilvægi lesturs, skoðunarferð um safnið og leyndardóma þess ásamt því að fá aðstoð við að velja sér nokkrar bækur til þess að lesa í átakinu. Heimsóknin heppnaðist vel og krakkarnir voru áhugasamir og tilbúnir til þess að takast á við lesturinn. Umsjónarkennarar héldu svo utan um átakið og skráðu hjá sér hve margar blaðsíður hver nemandi las. Þrátt fyrir að tíminn væri naumur voru krakkarnir mjög duglegir að lesa og komu reglulega í heimsókn á safnið til þess að skipta út bókum sem þeir höfðu lokið við, fyrir nýjar. Á þessu tímabili tókst þessum frábæru krökkum í 5.bekk Grunnskóla Vestmannaeyja að lesa u.þ.b. 10.000 blaðsíður!
 
Að átakinu loknu fengu krakkarnir heimsókn upp í skóla frá Bókasafni Vestmannaeyja þar sem afhent voru fern verðlaun ásamt farandbikar. Verðlaun fyrir flestar blaðsíður lesnar fékk Hrafnhildur Ósk Sigurðardóttir í 5.A.P. sem las 1027 blaðsíður á þessum 3 vikum sem er alveg frábær árangur. Innilega til hamingju með það Hrafnhildur Ósk
 
 
Einnig voru veitt verðlaun fyrir bestu framfarir á tímabilinu í hverjum bekk fyrir sig. Þessi verðlaun hlutu: Gíslný Birta Bjarkadóttir í 5. A. P., Ólafur Atli Helgason í 5. R.B. og Rósa María Bjarnadóttir í 5. Þ. J. en Gíslný Birta var því miður ekki í skólanum þennan dag.
 
 
Við óskum þeim innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.
 
Í lokin var svo gefinn farandbikar sem sá bekkur hlaut sem hafði lesið flestar blaðsíður samtals. Hann féll í skaut 5. A.P. sem las samtals 5023 blaðsíður á tímabilinu.
 
 
 
 
Í lokin langar okkur á Bókasafni Vestmannaeyja að þakka þessum skemmtilegu krökkum og kennurum í Grunnskóla Vestmannaeyja fyrir yndislegt samstarf og stórkostlegan árangur. Munið þið að æfingin skapar meistarann svo það er um að gera að vera dugleg að lesa í sumar! Hlökkum til að sjá ykkur á bókasafninu í sumar.