Útskurður Ásmundar Guðmundssonar í Einarsstofu

01.06.2011
Á sjómannadaginn þann 5.júní kl. 15:00 opnar í Einarsstofu í anddyrir Safnahússins sýning á útskurði Ásmundar Guðmundssonar. Um er að ræða listavel skorin tréskurðarverk sem unnin eru af einstakri vandvirkni.
 
Ásmundur Guðmundsson fæddist árið 1929 og starfaði sem skipstjóri til 1975. Hann fékk þá alvarlegt heilablóðfall, aðeins 46 ára að aldri. Við áfallið missti Ásmundur talmálið sem og máttinn í hægri hluta líkamans. Hann náði með miklum viljastyrk og ómetanlegri hjálp iðjuþjálfa á Grensásdeild að þjálfa upp vinstri höndina, sem hann notar nú til vinnu og athafna m.a. til þess að skera út og mála. Hann heillaðist af útskurðarlistinni, og hefur skorið út fjölda verka síðustu ár. Bera verk Ásmundar vott um mikla lagni og tilfinningu fyrir lögun og formi. Myndefnið sækir hann í íslenska náttúru og hefðbundin störf íslenskrar alþýðu fyrri tíma, svo sem fiskverkun og dýralíf. Ýmsir munanna tengjast Vestmannaeyjum með beinum hætti eins og t.a.m. fágæta tréskurður af bátnum Ísaki sem er einn hinna þekktu árabáta er smíðaður var með svo nefndu Landeyjarlagi.
 
Sýningin er tileinkuð tengdaforeldrum Ásmundar, hjónunum Einari Sigurðssyni og Ingibjörgu Bjarnadóttur frá Varmahlíð undir Eyjafjöllum. Ingibjörg var dóttir Bjarna Einarssonar frá Hlaðbæ.
 
Sýningin stendur fram yfir goslokarhelgi.