Lásu 62.512 blaðsíður
01.06.2010
Bókasafnið og Grunnskóli Vestmannaeyja hafa staðið fyrir lestrarátaki fyrir 5. bekk annað árið í röð. Nemendur koma á safnið, fá bækur lánaðar og kennarar halda utan um átakið hjá hverjum bekk fyrir sig. Samhliða hefur forstöðumaður kynnt nemendum safnið sérstaklega, auk þess sem þetta ár var boðið upp á þá nýbreytni að nemendur skrifuðu niður áhugasvið fyrirfram og reyndu starfsmenn safnsins að finna bækur við hæfi hvers og eins í framhaldinu. Þótti það heppnast vel, og merkilegt að sjá hveru fjölbreytt áhugasvið nemenda var. Meðan sumir báðu um bækur eftir einstaka höfunda á borð við Gunnhildi Hrólfsdóttur eða Enid Blyton vildu aðrir bækur um hesta og hunda eða fótbolta og fimleika. Sumir voru kerðsnari en aðrir og vildu einungis skemmtilegar bækur á meðan aðrir létu sér nægja spennubækur eða hinar sívinsælu draugabækur. Samtals lásu nemendurnir sjötíu og fimm 62.512 sem gera hvorki meira né minna en 833 blaðsíður að meðaltali á einstakling. Flestar blaðsíður las Bára Viðarsdóttir 5. ÞS eða 4704 bls. Þá kom Gabríel Martinez Róbertsson með 3337 bls. Í 5.KM las Davíð Már Jóhannesson flestar blaðsíður eða 2188; í 5. SJ las Lísa María Friðriksdóttir 2760 blaðsíður og í 5.GSnæ var það Kristín Rós Sigmundsdóttir sem las flestar blaðsíður eða 2637. Hlutu þau bókaverðlaun í boði safnsins. Auk þess fékk hver og einn nemandi að gjöf bók að eigin vali úr bóksölubás safnsins sem viðurkenningu fyrir góða þátttöku. Átakið þótti heppnast mjög vel og verður endurtekið að ári.
Kári Bjarnason forstöðumaður