Mæja spæja á bókasafninu miðvikudaginn 25. júlí kl. 14:00

23.07.2007

Miðvikudaginn 25. júlí klukkan 14:00 mun Bókasafn Vestmannaeyja ásamt fjölmörgum öðrum bókasöfnum víðs vegar um landið frumflytja fyrsta þátt útvarpsleikritsins Mæja spæja eftir Herdísi Egilsdóttur. Leikritið er í níu þáttum og ætlað börnum og unglingum. Það verður flutt í byrjun ágúst í Ríkisútvarpinu alla virka daga, utan föstudaga, um klukkan 19:30. Hver þáttur tekur 15 mínútur.      

„Mæja spæja fær spæjaragræjur í afmælisgjöf. Á sama tíma ræna glæpamennirnir Tómi og Klári tíu milljónum úr Þjóðarbankanum og fela peningana. Mæja spæja er sniðug og athugul stelpa og fer að æfa sig í að spæja með spæjaragræjunum sínum. Leiðir glæponanna og Mæju liggja saman á mjög dularfullan hátt. Tekst Tóma að kaupa sér sportbíl, Playstation þrjú og sólarferð til Benedorm fyrir ránsféð? Tekst Klára að gabba Tóma og verða ríkasti maður á Íslandi? Og síðast en ekki síst, tekst Mæju spæju að spæja svo mikið að hún upplýsi alvöru glæpamál? Þessum spurningum og mörgum öðrum verður svarað í spennuþáttunum um hana Mæju spæju sem flutt verður í Útvarpsleikhúsinu og hvergi annarsstaðar!!!! Leikendur eru Ilmur Kristjánsdóttir, Pálmi Gestsson, Sigurður Sigurjónsson og fleiri.“ (Af rúv.is)