Sýning á ljósmyndum Gísla J. Johnsen í Viskusalnum á morgun

09.11.2016
 Síðasta fimmtudag við upphaf Safnahelgar í Eyjum voru sýndar á sýningartjaldi í Safnahúsinu ljósmyndir úr fórum Gísla J. Johnsen (f. 1881- d. 1964 ) eins mesta athafnamanns í sögu Vestmannaeyja.
Um er að ræða um 180 ljósmyndir flestar teknar á árunum 1910-1930 og spanna það tímabil þegar mikill uppgangur var í Eyjum eftir að vélbátaöldin gekk í garð. Gísli J. Johnsen var mesti athafnamaður Eyjanna á þessum tíma og rak fjölþætta starfsemi í útgerð, fiskvinnslu, verslun og viðskiptum. Gísli Johnsen og fjölskylda byggðu húsið Breiðablik árið 1908 og þá hafði hann forgöngu um byggingu Sjúkrahúss  Vestmannaeyja sem lauk 1928 og varð Ráðhús Vestmannaeyjabæjar árið 1977.  Á myndasýningunni sl. fimmtudag var kallað eftir  upplýsingum á mörgum myndanna og voru þær færðar jafnóðum inn af starfsfólki ljósmyndasafns Safnahússins og flýtir það fyrir við seinni sýningu þeirra. Myndirnar sýna einkum  fólk, hús og athafnalíf í Eyjum á þessum uppgangsárum.
Ákveðið var að verða við óskum um að endurtaka myndasýninguna og verður hún nú  í Viskusalnum Strandvegi 50 jarðhæð fimmtudaginn 10. nóvember kl. 17.00 ( kl. 5.00 síðdegis) og mun hún standa til kl. 18.30. Þá verður lokið að fara í gegnum þessar 180 ljósmyndir og verður staldrað  við sumar þeirra og kallað eftir upplýsingum. Þessi rúllandi myndasýning er liður í samstarfsverkefnum Safnahúss og Visku og með því að hafa sýninguna síðdegis ættu fleiri  að eiga möguleika að mæta.