Safnahelgi – Eyjamenn á Ólympíuleikunum í Berlín 1936

 

 

Það var tilhlökkunarefni að mæta í Einarsstofu, Safnahúsi sunnudaginn 10. nóvember þar sem Hörður Baldvinsson, safnstjóri Sagnheima sagði frá för fimm Eyjamanna á Ólympíuleikana í Berlín 1936. Þetta var mikil ævintýraferð fyrir 50 Íslendinga, þar af fimm Eyjamenn að koma úr fásinninu á Íslandi til Þýskalands sem þá var í miklum blóma.

 

Þeir sem kepptu frá Eyjum voru Sigurður Sigurðsson í hástökki og þrístökki og Karl Vilmundarson í tugþraut. Friðrik Jesson og Jón Ólafsson sýndu glímu og Þorsteinn Einarsson, glímukóngur, methafi í kúluvarpi, formaður íþróttaráðs Vestmannaeyja og síðar íþróttafulltrúi ríkisins var fararstjóri hópsins.

 

 

Hörður hefur lagt mikla vinnu í að rekja sögu hópsins og hefur notið góðrar aðstoðar afkomenda Berlínarfaranna sem þarna lifðu sennilega stærsta ævintýri lífs síns. Á eftir fyrirlestri Harðar verður opnuð sýning í Sagnheimum sem á eftir að koma á óvart. Þar er að finna myndir, frásagnir, verðlaunapeninga og margt fleira sem tengist þessum stóra atburði í íþróttasögu Íslands og ekki síður Vestmannaeyja sem áttu tvo af fjórum keppendum á leikunum í frjálsum íþróttum og tvo í hópi glímumanna.

 

Það eitt er staðfesting á að íþróttir í Vestmannaeyjum standa á gömlum merg.

 

Viðtal við Hörð Baldvinsson safnstjóra

Byggðasafns Vestmannaeyja

 

 

„Það var íþróttasýning, sem Helga Hallbergsdóttir, forveri minn í starfi setti upp í sumar og þar sé ég mynd af manni frá Vestmannaeyjum sem hafði fengið viðurkenningu fyrir að hafa farið á Ólympíuleikana í Berlín 1936,“ segir Hörður Baldvinsson, forstöðumaður Sagnheima í Vestmannaeyjum um það sem kveikti áhuga hans á Íslendingum sem fóru á Ólympíuleikana þetta ár í Berlín þegar Adolf Hitler og Nasistaflokkurinn réðu öllu í Þýskalandi. Alls fór um 50 manna hópur frá Íslandi og þar af fimm frá Vestmannaeyjum. Var þetta mikið ævintýri fyrir þessa menn, að koma frá litla Íslandi sem var svo langt á eftir Evrópulöndum í flestu, til Þýskalands sem á þessum tíma skaraði fram úr og tjaldaði öllu til að Ólympíuleikarnir yrðu sem glæsilegastir. Áttu að sýna yfirburði þýsku þjóðarinnar og nasismans. Leikmynd sem byggð var á hörmungum og var rústir einar innan við áratug síðar þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk.

Íslendingum var sérstaklega boðið á leikana og tóku gestgjafarnir einstaklega vel á móti þeim. Þeir sem fóru frá Vestmannaeyjum voru Sigurður Sigurðsson sem keppti í hástökki og þrístökki þar sem hann komst í úrslit. Karl Vilmundarson keppti í tugþraut en hætti eftir tvær greinar. Friðrik Jesson sýndi glímu. Hann var fimmfaldur Íslandsmeistari í frjálsum og talinn einn fjölhæfasti íþróttamaður landsins á þeim tíma. Jón Ólafsson sýndi einnig glímu. Hann var alhliða íþróttamaður, stundaði bæði frjálsar íþróttir og knattspyrnu og þótti afburðagóður kylfingur. Þorsteinn Einarsson, glímukóngur Ármanns, methafi í kúluvarpi, formaður íþróttaráðs Vestmannaeyja og síðar íþróttafulltrúi ríkisins var fararstjóri hópsins.

 

Fimm frá Eyjum

Hörður segir að myndin góða hafi kveikt í sér svo um munaði.  „Ég fór að skoða hvort það væru til einhverjar myndir eða frásagnir af þessari ferð. Þannig byrjaði þetta. Ég fer að gúgla og fer inn á tímarit.is  frá þessum tíma. Hélt áfram að gramsa, finn brot og brot og sé að þetta eru fimm menn frá Eyjum. Þrír eru í hópnum sem sýna glímu og tveir taka þátt í frjálsíþróttakeppninni á leikunum,“ segir Hörður og nú var áhuginn vaknaður fyrir alvöru.

„Staðreyndin er sú að það er afskaplega lítið skrifað um þessa Ólympíuleika hér landi annað en að þetta hafi verið nasistaáróður. Hafði ég samband við ÍSÍ en þar var ekkert til. Ekkert. Svo er ég að gramsa inni í skjalageymslu,  finn þar fyrstu ljósmyndina og fer að hringja í ættingja. Hringi m.a. í son Sigurðar Sigurðssonar, Sigurð Sævar og spyr hvort eitthvað hafi varðveist en hann hélt að svo væri ekki. Tveimur til þremur vikum seinna fékk ég þær fréttir að fundist hefði kassi í geymslu hjá dóttur hans,“ segir Hörður og þarna fór boltinn að rúlla af krafti.

 

Afkomendur hjálplegir

Börn Sigurðar gáfu kassann til safnsins og í ljós kom að hann hafði ekki bara að geyma ljósmyndir. „Þarna voru viðurkenningar, blöð og bækur sem hann fékk á meðan hann var þarna úti. Þarna fer púslunum að fjölga og seinna koma dóttir og tengdasonur Friðriks Jessonar, Ágústa og Kristján Egilsson með gögn. Sonur Jóns, Sigurður Þórir átti í fórum sínum eitt og annað sem nýttist mér vel. Enn seinna fæ ég albúm með myndum og ég get farið að teikna þessa sögu upp,“ segir Hörður sem leitaði fanga hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Þjóðminjasafninu, þýska sjónvarpinu og aflaði gagna eins víða og hann taldi mögulegt.

„Loksins var ég kominn með frásögn sem mér fannst að mætti alveg heyrast. Setti mig inn í tíðarandann. Finn viðtal í Þjóðhátíðarblaðinu við Sigurð Sigursson þar sem hann segist hafa kynnst Jesse nokkrum Owens sem er kannski frægasti frjálsíþróttamaður allra tíma. Sigraði þýska keppandann í 100 metra hlaupinu sem ekki var Hitler að skapi. Þeim varð vel til vina og fékk hann  eiginhandaáritun Owens sem verður til sýnis hér á Sagnheimum.“

 

Ólíkar aðstæður

Hörður hefur skoðað alla umgjörð leikanna, leikvanginn, Ólympíuþorpið og bar saman frásagnir. „Sigurður var eins og hver annar Eyjamaður, í sinni vinnu en var greinilega mikill íþróttamaður frá náttúrunnar hendi. Hleypur hér upp um öll fjöll og lýsir því þegar hann í mestu frostum fékk að æfa inni í Lifrarsamlaginu þar sem var moldargólf. Þetta var illa séð hjá fullorðnum sem spurðu; af hverju ert þú ekki að vinna strákur? Hvaða djöfulsins sprikl er þetta? Það er gaman að bera þetta saman við nútímann og leikvanginn í Berlín sem rúmaði 100.000 manns í sæti. Reyna að ímynda sér hvernig það var fyrir Íslendingana að labba inn á þennan leikvang, þar sem áhorfendur voru fleiri en bjuggu á Íslandi. Þetta er slíkur fjöldi, ekki síst fyrir peyjana frá Eyjum þar sem tíu til tuttugu mættu til að horfa á. Þeir voru bara sveitamenn og upplivelsið, allt frá því þeir stigu á land í Hamborg þar til haldið var heim aftur.“

 

Lúxus í lestinni

„Þegar Goðafoss kemur til Eyja, þar sem fimmmenningarnir eru ferjaðir um borð er búið að setja trégólf í afturlestina og til að undirstrika lúxusinn var sett segl innan á lestina og 50 dýnur. Það var ekki verið að bæta við björgunabátum þó 50 manns væru í lestinni. Salernisaðstaðan var eftir því sem ég veit best, klósett og einn vaskur og sturtan spúll uppi á dekki. Þetta er ferðalag sem tók á annan mánuð. Eftir móttöku í Hamborg tekur við hraðlest til Berlínar. Enginn þeirra hafði séð járbrautalest hvað þá stigið inn í hana. Það er farið með þá í ráðhús Hamborgar sem er 112 metra há bygging og 27 þúsund fermetrar, alveg gríðarleg bygging. Þessir menn höfðu aldrei séð neitt í líkingu við þetta. Þeir koma í borgir með hellulögðum strætum, margra hæða húsum, bílum, strætisvögnum, mótorhjólum sem hefur verið þvílík upplifun fyrir Íslendingana sem þarna voru mættir.“

Níu árum síðar, í febrúar 1945 er Dettifoss skotinn niður af Þjóðverjum skammt undan Reykjanesi og varð mikill mannskaði.

Frítt fæði og uppihald

Þýska stjórnin bauð Íslendingunum frítt fæði og uppihald en það hefur hvergi komið fram hvort  það var Eimskip eða einhver annar sem borgaði ferðalagið yfir hafið. Það fékkst styrkur frá Reykjavíkurborg og ríkinu en að öðru leyti þurftu þeir að borga sjálfir. „Fimmmenningar í Eyjum gengu í hús og fengu pening frá velviljuðum og áhugamönnum um íþróttir. Hver og einn fékk 500 krónur í eyðsufé. Ég komst að því að fyrir þessar 500 krónur á þessum tíma var hægt að kaupa tvö tonn af kartöflum sem í dag kosta um 480 þúsund krónur.“

Æfðu hálfan mánuð á Laugarvatni

Þarna var öllu til tjaldað, leikvangurinn sem byrjað var að reisa 1932 og þarna skartar Þýskaland öllu sína glæsilegasta undir ægivaldi nasismans. „Stærðin á þessum tíma hefur verið gígantísk og gaman að reyna að setja sig í spor þessara manna. Þetta voru miklir íþróttamenn og þegar þetta er skoðað í víðara samhengi stóðu þeir sig ekki illa. Þeir voru að keppa við menn sem voru vanir því besta.

Hér var engin aðstaða og undirbúningurinn var með þeim hætti að keppendur héðan fengu hálfan mánuð á Laugarvatni við æfingar. Þannig að viðbrigðin eru mikil og Karl Vilmundar, sem átti að keppa í tugþraut kiknar undan álaginu. Pressan bugar hann. Það er svo mikill hávaði á vellinum að hann heyrir ekki þegar nafnið hans er kallað upp í 100 metra hlaupið. Heyrir það ekki, það er allt tryllt á vellinum og hann veit ekki hvort hann er að koma eða fara. Hann fær svo að hlaupa einn og hleypur á mun lakari tíma heldur en hann gerði nokkurn tíma hér heima. Í langstökki stekkur hann miklu styttra heldur hann gerði hér heima og hættir keppni,“ segir Hörður og er viss um þetta hafi lagst þungt á Karl, að hafa hætt keppni.

Mikið ævintýri

„En þetta var gríðarlegt ævintýri fyrir þessa menn  að sjá alla þessa uppbyggingu í Þýskalandi og þessa Ólympíuleika sem voru fyrst og fremst pólitískir og áttu að vera skrautfjöður í hatt Hitlers og nasistanna. Þeir vissu það ekki og héldu að þetta ætti að vera svona. Þeim er boðið í bíltúra um allar trissur þannig að þetta var gríðarlegt ferðalag. Það er fengur að fá upplýsingar um það frá þessum mönnum.

Friðrik Jesson hélt dagbók sem ég fékk að skoða. Einnig allt sem til var frá Sigurði Sigurðssyni. Þorsteinn Einarsson, sem var íþróttafulltrúi ríkisins var þekktur íþróttamaður sem og fyrir störf sín að íþróttamálum. Hann skrifaði mjög mikið en ég hef ekki fundið neitt eftir hann um ferðina. Slatta af ljósmyndum en annars ekki mikið.

Ég hef þó fengið nóg héðan og þaðan, t.d. úr Morgunblaðinu til að fá heildarmynd af þessum merka þætti í íþróttasögu Íslands og ekki síður Vestmannaeyja. Varðandi Þorstein má geta þess að sonur hans, Gísli Ingimundur keppti í júdó á Ólympíuleikunum 1976 í Montreal og dóttursonur Friðriks, Logi Jes Kristjánsson Íslandsmeistari í sundi keppti á leikunum í Atlanta. Þannig að fræ sem sáð var 1936 náðu að blómstra þó seinna væri,“ sagði Hörður að endingu.

Eins og áður kemur fram báru gestgjafarnir Íslendingana á örmum sér og sem dæmi um það var þeim síðasta kvöldið í Berlín boðið til kvöldverðar á einum glæsilegast veitingastað Berlínar Atlantis-Winkerdorf.

Fjórir íslenskir frjálsíþróttamenn voru þátttakendur á Ólympíuleikunum í Berlín 1936. Einn keppendanna, Sigurður Sigurðsson komst í úrslitakeppnina í þrístökki, sá fyrsti í frjálsum íþróttum. - Sigurður stökk í annarri tilraun vel yfir 14 metra sem dugði til að komast í úrslit. Þar stökk hann 13,58 m sem nægði í 11. sæti. - Sigurður tók einnig þátt í hástökki og jafnaði Íslandsmetið með því að stökkva 1,80 metra. Hann reyndi næst við 1,85 m en tókst ekki, en það var hæðin, sem þurfti að stökkva til að komast í úrslit. Loks keppti Karl Vilmundarson í tugþraut. Hann hljóp 100 metra á 12,6 sek. og stökk 5,62 metra í langstökki. Eftir þessa slæmu byrjun hætti Karl keppni. Segja má að árangur íslensku keppendanna hafi verið vel viðunandi miðað við það álag að þurfa að keppa fyrir framan 100.000 manns.

Sýningin var opnuð í Sagnheimum um Safnahelgina. Hörður flutti einnig mjög góðan fyrirlestur um rannsóknir sínar.