Lokadagar Safnahelgar – Mikil ánægja með sýningarnar

20.11.2020

Lokadagar Safnahelgar – Mikil ánægja með sýningarnar

 

Myndasýningar í búðargluggum í miðbænum hafa svo sannarlega slegið í gegn hjá bæjarbúum og gestum. Þar eru sýnishorn af einstökum myndum sem Ljósmynda- og Kvikmyndasafn Vestmannaeyja hafa að geyma. Kaupmenn, sem sýnt hafa verkefninu mikinn áhuga tóku vel í að framlengja sýninguna fram yfir helgi. Það er því ennþá möguleiki að gera sér ferð í bæinn og kíkja á myndasýningarnar sem rúlla í sjónvörpum í verslunum.

 

Það hefur verið starfsfólki Safnahús ánægjuefni sú mikla ánægja og athygli sem sem sýningarnar hafa fengið. Þær voru sýndar á Hraunbúðum í vikunni og voru dæmi um að íbúar þar þekktu sjálfa sig á unga aldri.

 

Ný myndbönd á netið

Þetta er aðeins lítið brot af því sem söfnin hafa að geyma og á næstunni verða sett inn myndbönd á Fésbókarsíðu Sagnaheima. Nýtt myndband verður sett inn í dag og væntanlegar eru lengri myndskeið inn á heimasíðu safnsins, sagnheimar.is.  Má búast við viðbrögðum því ekki færri en tíu þúsund kíktu á kynningarmyndbandið sem sett var inn í síðustu viku.

 

 

Hörður, Viktor og Kári settu sýninguna í gang í síðustu viku.