Dymbilvika og páskar í Safnahúsi

03.04.2012
 
Hin árlega páskasýning er að þessu sinni helguð Eyjalistamanninum Ragnari Engilbertssyni. Ragnar er fæddur 15. maí 1924, sonur hjónanna Engilberts Gíslasonar listmálara og Guðrúnar Sigurðardóttur. Á árunum 1943 til 1951 nam Ragnar málaralist, fyrst í Reykjavík en síðar við Kunstakademíuna í Kaupmannahöfn.
 
 
Myndirnar sem hér eru sýndar eru allar úr einkaeigu Ragnars og hafa fæstar áður komið fyrir sjónir almennings. Þær gefa gott yfirlit yfir feril listamannsins, þar sem elstu myndirnar eru frá 1944 og hinar yngstu aðeins nokkurra ára gamlar.
Sýningin Ragnars opnar kl. 13 á skírdag. Gísli Stefánsson, frændi Ragnars, mun spjalla um listamanninn og flytja nokkur lög. Þá mun Ragnar vera á staðnum og ræða við gesti um verk sín.
Sýningin er opin yfir páskana alla daga aðra en föstudaginn langa kl. 13-17. Sýningin verður opin eftir það á opnunartíma í Safnahúsi fram að sumardeginum fyrsta, 19. april.
Í sýningarskápum í Einarsstofu eru ýmsir dýrgripir tengdir páskum, Passíusálmar Hallgríms Péturssonar spila þar stórt hlutverk, Biblía úr eigu gamla Jóns í Gvendarhúsi, gamlar fermingarmyndir úr safni Kjartans Guðmundssonar og gamlir kirkjumunir úr Byggðasafni.
Sagnheimar, byggðasafn, verða opnir á laugardag kl. 13 - 16.