Örfá póstkort eftir

Bréfamaraþon Amnesty á Bókasafninu

14.12.2011
Við á Bókasafninu höfum undanfarið tekið þátt í bréfamaraþoni Amnesty og verðum með fram að næstu helgi.
Í baráttunni fyrir mannréttindum átt þú öflugt vopn. Vopn sem getur breytt heiminum. NAFNIÐ ÞITT
 
Bréfamaraþonið hefur gengið með afbrigðum vel. Um tvöfalt fleiri hafa tekið þátt en í fyrra og um 6.000 bréf, póstkort og undirskriftir hafa nú þegar safnast. Bestu þakkir til allra sem hafa tekið þátt!
 
 
Nú þegar hafa verið talin um hálf milljón bréf, póstkort og undirskriftir hjá þátttakendum víða um heim.
 
Í fyrra fengu um 5 af hverjum 6 einstaklingum, sem voru viðfangsefni bréfamaraþonsins, nokkra eða fulla úrlausn sinna mála.  
 
 
Við erum með tvennskonar póstkort hér á Bókasafninu og hér fyrir neðan má lesa innihald þeirra.
 
Annað er stílað á forseta Mexíkó:
Mexíkóskir hermenn nauðguðu Inés Fernández Ortega og Valentinu Rosendo Cantú árið 2002. Þær kærðu nauganirnar til yfirvalda og fylgdu máli sínu eftir. Þrátt fyrir það hefur engin alvöru rannsókn farið fram og enginn verið dreginn til ábyrgðar.
Inés Fernández var nauðgað 22.mars 2002. Þrír hermenn komu inn í hús hennar þar sem hún var að elda matinn með börnum sínum. Henni var skellt á gólfið og einn hermannanna nauðgaði henni meðan hinir horfðu á. Valentina Rosendo, sem þá var 17 ára, var að þvo föt við árbakka þegar hermenn komu þar að. Henni var hótað og tveir hermannanna nauðguðu henni.
Inés Fernández og Valentina Rosendo eru frumbyggjar og tilheyra Me´phaa (Tlapaneca) þjóðarbrotinu. Frumbyggjakonur sem sæta nauðgun kæra yfirleitt ekki ofbeldið vegna menningarlegra, efnahagslegra og félagslegra hindrana. Inés Fernández og Valentina Rosendo hafa sýnt hugrekki í því að tilkynna ofbeldið gegn þeim og hafa fylgt máli sínu eftir fyrir dómstólum innanlands og á alþjóðavettvangi. Rannsóknarmenn hersins hafa reynt að afsanna ákærurnar og lagt sönnurnarbyrði á herðar þolendunum. Stjórnvöld hafa einnig brugðist hlutverki sínu gagnvart konunum. Konurnar og fjölskyldur þeirra hafa sætt hótunum. Hinn 28. ágúst 2010 réðust tveir menn á dóttur Inés Fernández og hótuðu að drepa fjölskyldumeðlimi hefði fjöskyldan sig ekki á brott af svæðinu. Mannréttindadómstóll Ameríku felldi tvo dóma í málum gegn Mexíkó í ágúst 2010 og skipaði yfirvöldum í landinu að hefja ítarlega rannsókn á málum kvennanna og gera endurbætur á herréttarkerfi landsins. GRÍPTU TIL AÐGERÐA 
 
 
Hitt er til varnarmálaráðs (defence commission) Norður Kóreu.
Talið er að um 50.000 karlmönnum, konum og börnum sé nú haldið í Yodok-fangabúðunum, sem ætlaðar eru pólitískum föngum. Yodok er ein af sex fangabúðum sem vitað er um, og er talið að þar séu um 200.000 pólitískir fangar og fjölskyldur þeirra (eða um 1 af hverjum 100 íbúum Norður-Kóreu) í haldi. Þetta fólk hefur verið hneppt í fangelsi án réttarhalda eða í kjölfar mjög óréttlátra réttarhalda. Fangar, þeirra á meðal börn, eru pyndaðir og neyddir til að vinna við hættulegar aðstæður. Það, ásamt viðvarandi matarskorti, barsmíðum, ónógri læknishjálp og skorti á hreinlætisaðstöðu, veldur því að sjúkdómar eru algengir og margir fangar deyja í fangelsi eða skömmu eftir að þeir eru látnir lausir.
Yfirvöld í Norður-Kóreu neita að viðurkenna tilvist fangabúðanna þó að gervihnattamyndir og vitnisburður fyrrverandi fangavarða, ættingja og fanga, sem Amnesty International hefur skráð, staðfesti það. Meðal þeirra sem sendir eru í búðirnar eru embættismenn sem taldir eru hafa vanrækt starf sitt, einstaklingar sem gagnrýna stjórnvöld og fólk sem grunað er um framferði sem er andstætt stjórnvöldum, þar á meðal að horfa á sjónvarp eða hlusta á útvarpssendingar frá Suður-Kóreu.
Aftökur í Yodok eru stundum haldnar fyrir opnum tjöldum. Yfirleitt eru fangar leiddir fyrir aftökusveit eða hengdir. Stundum eru fangar teknir af lífi fyrir að brjóta reglur, eins og að stela mat.
GRÍPTU TIL AÐGERÐA