Tyrkjaránið
 
[Skansinn]
 
 
Á 15. og 16. öld voru miklar erjur í Eyjum vegna ágengni og yfirgangs Englendinga. Gerðu þeir sér virki á eyjunni á fyrri hluta 15. aldar sem þeir nefndu "Castle" eða Kastali. Allt fram undir síðustu aldamót var stórt afmarkað svæði í útjaðri bæjarins sem kallað var Kastali eða í Kastala. Árið 1515 eða í tíð Kristjáns II. Danakonungs var gefin út tilskipun um að gera gott vígi á Skansinum. Varð minna úr framkvæmdum en til stóð. Vegna yfirgangs og veldis Englendinga hér í Eyjum fyrirskipaði Friðrik II. Danakonungur árið 1586 að gera skyldi virki (blokhús) á góðum stað við höfnina. Byggt var grjót- og trévirki á sömu slóðum og núverandi Skans er. 
 
Tyrkjaránið:
 
16. júlí árið 1627 varð átakanlegur atburður í sögu Vestmannaeyja, þegar sjóræningjar frá Alsír komu þangað á þremur skipum. Ræningjarnir misþyrmdu fólki, svívirtu konur og drápu að minnsta kosti 34 Eyjabúa. Þá Eyjamenn sem ræningjarnir drápu ekki ráku þeir saman í hnapp, bundu á höndum og fótum og fluttu síðan út í skip, alls 242 karla og konur. Þeir rændu öllu fémætu, fjármunum og helgum gripum kirkjunnar á Fornu-Löndum og brenndu síðan kirkjuna. Nokkrir komust undan ræningjunum með því að fela sig í hellum og gjótum eða klifra björg og síga. Menn endurreistu varnarvirkið árið 1630. Þar voru fallbyssur og annar vopnabúnaður geymdur og varðmaður stöðugt á ferli. Árið 1639 var Jón Ólafsson Indíafari byssuskytta (constabel) á Skansinum (var hann byssuskytta í eitt ár). Eftir Tyrkjaránið voru settar reglur um vökur á Helgafelli til að gæta að grunsamlegum skipakomum. Hver ábúandi var skyldugur að láta einn fulltíða mann vaka. Vakan átti að byrja á krossmessu á vori og stóð fram í júlímánuð. Vökumenn áttu að vera komnir upp á Helgafelli fyrir sólarlag og vaka til miðs morguns. Annar skyldi hlaupa í Skansinn en hinn átti að hringja kirkjuklukkum, ef hættu bar að höndum (Vökudómur). Vakan á Helgafelli hélst með vissu fram yfir 1700 og var mikil varúð höfð við, um að enginn gæti svikist undan. Áttu vökumenn að hlaða vörðu upp á Helgafell í hvert sinn til sannindamerkis um að þeir hefðu verið vakandi. Ótti og hræðsla við ræningja hélst lengi við hér í Eyjum, enda átti því að hafa verið spáð að eyjarnar yrðu rændar öðru sinni.
 
Herfylkingin:
 
Árið 1853 varð danskur maður, Andreas August von Kohl (f. 1814 - d. 1860) sýslumaður í Vestmannaeyjum. Hann hafði verið í landher Dana og hlotið þar kapteins nafnbót og var mikill áhugamaður um heræfingar. Skömmu eftir að hann kom til Eyja, stofnaði hann herflokk með fullvöxnum mönnum. Æfði flokkur hans af miklu kappi og vígbjó sig eins og tíðkaðist í Danmörku. Einnig kom hann upp drengjaflokk. Mikill uggur var enn í Eyjamönnum við Tyrki, þó þetta væri um 230 árum eftir árás þeirra. Var ekki laust við að menn héldu að hvert skip, sem þeir báru ekki kennsl á væri tyrknest ræningjaskip. Eitt sinn slagaði skip eftir Flóanum og þótti Kohl það grunsamlegt, því það svaraði ekki flaggmerkjum, sem hann gaf frá Skansinum. Safnaði Kohl saman herliði sínu og fjölda annarra manna og raðaði þeim á Skansinn. Setti hann Magnús Eyjólfsson í að steypa kúlur, svo að ekki skorti ef til orrustu drægi. Setti hann tíu menn vopnaða á vörð við Austurbúðarbryggjuna og áttu þeir að verja skipsmönnum landgöngu, ef á þyrfti að halda. Ekki kom þó til neinna átaka, því skipið sigldi til hafs. Nokkru seinna kom skip þetta til Reykjavíkur og furðaði skipshöfnina mjög á vígbúnaði hér í Eyjum, en þetta var skosk fiskidugga og hafði hún ætlað að fá vatn í Eyjum, en ekki litist á blikuna.Hér má sjá lokalínur úr hersöng sem liðsmenn, Herfylkingar Vestmannaeyja sungu.
 
Við skulum sýna að ljúft oss er að láta líf og blóð.
Hina aðra vesla menn, sem voga ekki með,
Við skulum vernda voða frá og varna við ófrið,
Sjötíu saman við er sérlegt hjálparlið.
Húrra! Húrra! Húrra!
                      (Höfundur ókunnur)
 
 
Umhverfi Skansins:
 
Skanshliðið norðan við sjóveitugeyminn, var alltaf fjölsótt og vinsælt meðal Vestmannaeyinga, hvort sem var á sumri eða vetri. Fyrir eldgosið árið 1973 var á sumrin útsýnið og fegurðin einstæð, en á veturna var hrikalegt að horfa af Skansinum á vetrarsjóinn. Frammi af Skansinum er Hringskersgarður og innsiglingin eða Leiðin. Það var í senn tignarlegt og hrikalegt að sjá vetrarsólina skella á görðunum, brotna og falla freyðandi vestur yfir, en þegar aldan var fallin myndaðist blásinn, hvítur kragi, sem rokið þeytti upp með garðbrúninni að austan. Stöður fólks á Skansinum voru einkum tíðar fyrr á árum, þegar bátar voru talstöðvarlausir og aðstandendur biðu milli vonar og ótta eftir að sjá bátskel föður eða eiginmanns birtast fyrir Klettsnefið og lensa heilu og höldnu inn Víkina.
Sjóveita var sett upp á Skansinum árið 1931. Var það þannig gert að sjórinn var tekinn utan hafnar. Sjónum var dælt í pípum í sjógeyma á Skansi og frá honum lögð 12" trépípa meðfram höfninni til fiskhúsanna. Í dæluhúsi skyldi vera miðflótta dæla, knúin af 42 hestafla hreyfli, afköst dælu 270 rúmmetrar á klukkustund. Sjóveitan var þinglýst eign Vestmannaeyjakaupstaðar 15. desember 1931 Er raflína var lögð frá landi árið 1961 var hún tekin upp í Klettsvík. Var þaðan lagður strengur í loftlínu upp á Heimaklett og þaðan loftlína frá suðvesturhorni Heimakletts úr 145 m hæð í 15 m endastöð skammt suður af Skansinum. Sjást tveir stólpar enn. Laugardaginn 20. júlí 1968 fögnuðu Eyjamenn nýrri vatnsveitu. Var hún lögð ofan af landi um neðansjávarleiðslu og var tekin upp á Skansinum. Eldgos hófst í Vestmannaeyjum 23. janúar 1973. Mörg mannvirki hurfu í hraunflóðið. 26.-27. mars náði hraunjaðarinn fjörumáli austast í höfninni og í síldarþrær við Skansinn, en 1. apríl skaddaðist svo Skansinn lítillega. Við eldgosið varð breyting á Skansinum sem útsýnisstað, en þann dag í dag nýtur almenningur þess að fara út á Skans og gera sér glaðan dag og njóta þessara fallegu minja. Skansinn er með elstu mannvirkum sem til eru í Eyjum . Skansinn var fyrir gos 14,5 x 32 m að innanmáli, en austurveggurinn er um 43 m á lengd, þykktin 5 m og hæðin 2 m.
 
(Jóhann Gunnar Ólafsson: Vestmannaeyjar. FÍ 1948 s.126)