Skansinn
 

Skansinn hefur í aldaraðir verið fjölsóttur og vinsæll meðal Vestmannaeyinga, hvort sem er á sumri eða vetri. Útsýnið og fegurðin hafa löngum verið einstæð, en á veturna var oft hrikalegt að horfa af Skansinum út á vetrarsjóinn. Fólk fór oft út á Skansinn þegar bátar voru talstöðvarlausir og aðstandendur biðu milli vonar og ótta eftir að sjá bátskel föður eða eiginmanns birtast fyrir Klettsnefið og lensa heilu og höldnu inn Víkina.


Sjóveitutankurinn
Sjóveitutankurinn var byggður árið 1931 til að sjá fiskvinnslufyrirtækjum fyrir hreinu vatni til vinnslu.
 
Landlyst
 

Húsið Landlyst er með elstu húsum í Eyjum, það hefur nú verið endurbyggt og komið fyrir á Skanssvæðinu. Landlyst var byggt árið 1847 og var fyrsta fæðingarheimili á Íslandi byggt við það árið 1849. Húsið var byggt af Matthíasi Markússyni snikkara og konu hans Sólveigu Pálsdóttur ljósmóður.
Sólveig var send til ljósmæðranáms í Kaupmannahöfn og við heimkomuna var byggt fæðingarheimili við Landlyst með styrk frá danska ríkinu. Þetta kom til vegna landlægs sjúkdóms sem nefndist ginklofi (stífkrampi) og lagðist hann sérstaklega á ungabörn. Ginklofinn var skæðari í Eyjum en annars staðar hér á landi og ungbarnadauði var mikill.
Sumarið 1847 kom danski læknirinn A. Schleisner til Eyja, sendur hingað af danska ríkinu til að takast á við þennan faraldur. Schleisner og Sólveig tóku upp samvinnu og tókst þeim að útrýma ginklofanum á ótrúlega skömmum tíma.

Bókasafnið í Landlyst
Bókasafn Vestmannaeyja var stofnað 1862 og var það staðsett í Landlyst fyrstu 9 árin. Þá var bókakostur mjög fábreyttur, aðallega guðsorðabækur, rímur og fornsögur. Nú er safnið staðsett í Safnahúsi Vestmannaeyja.


Stafkirkjan 


 

Í tilefni af 1000 ára afmæli kristni á Íslandi gaf norska þjóðin Íslendingum stafkirkju og var henni valin staður á Heimaey. Sagt er í Kristnisögu að Hjalti Skeggjason hafi komið með efnivið í kirkju til Eyja að skipan Noregskonungs árið 1000.


Hringskersgarður


 

Hafist var handa við vinnu við garðinn árið 1914 og lauk henni ekki fyrr en um 1930, en vegna ágangs sjávar þurfti garðurinn mikið viðhald. Viti hefur staðið á garðinum frá því um 1920.