Eldgosið í Surtsey

 

Eldgosið í Surtsey hófst líklega nokkrum tímum eða jafnvel dögum áður en menn urðu þess varir. Fyrstu ummerki á yfirborði sjávar sáust af skipverjum á línubátnum Ísleifi II. frá Vestmannaeyjum, snemma að morgni 14. nóvember 1963. Þeir lágu yfir línu um 7 km vestur af Geirfuglaskeri, sem var þá syðsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum og um leið syðsti staður Íslands.

Skipverjar urðu varir við brennisteinsfýlu og sáu þúst suðaustur af bátnum. Þústin reyndist vera um 60 m hár kolsvartur strókur sem steig upp af haffletinum. Skipverjar fylgdust með gosinu um stund og virtist þeim það sífellt færast í aukana. Gosið varð öflugra með hverjum tímanum sem leið og tólf tímum síðar mældist gosmökkurinn rúmlega 5 km á hæð. Gosið færðist mjög í aukana aðfaranótt hins 15. nóvember. Á níunda tímanum um morguninn mældist hæð gosmakkarins rúmir 8 km, en kolsvartir sprengibólstrar geystust með stuttu millibili 300-500 m í loft upp. Á undan hverjum bólstra fór drífa af hraunkúlum (bombum). Um morguninn þann 15. nóvember grisjaði öðru hverju í dökka rönd undir gosmekkinum, en skömmu fyrir hádegi svipti vindurinn mekkinum frá eldstöðinni að norðvestan. Sást þá, að eyja var risin úr hafi. Var það norðvestur gígurinn. Gígurinn var þá 8-10 m á hæð. Á einum degi hafði því hlaðist upp 140 metra hátt fjall, því áður var þar um 130 m sjávardýpi. Eyjan hækkaði og stækkaði sífellt næstu daga. Gosið var jafnan með nokkrum hléum, en stuttum. Fyrsta verulega hléið varð þann 1. desember 1963 og varð það um 4 klukkustundir. Hvergi steig þá gufa upp af eynni og var einna líkast því að þar hefði aldrei gosið. Mávar sem voru á sveimi þann dag kringum eynna settust á hana og voru líklega fyrstu lífverurnar sem þar tylltu fæti sínum.

Fyrstu náttúrufræðingarnir stigu á land þann 16. desember sama ár, en þá varð nokkurt hlé á gosinu. Franskir blaðamenn höfðu farið í land í Surtsey þann 6. desember og voru líklega fyrstir manna til að koma í Surtsey. Fyrstu Íslendingarnir sem tóku land í Surtsey, voru þrír ungir Vestmannaeyingar, þann 13. desember. Um mánaðarmótin mars-apríl 1964 var eyjan orðin um einn ferkílómetri að stærð. Í byrjun apríl var því veitt eftirtekt að gjóskurifið sem hindraði sjórennsli í gíginn, var orðið tvöfalt og allbreitt. Gígurinn fylltist því ekki lengur af sjó þegar hlé varð á gosinu og einnig var margt sem benti til þess að gjóskan værði orðin það þétt að sjór seytlaði ekki lengur í gegnum hana inn í gíginn.

Þann 4. apríl 1964 hófst hraungos í Surtsey, svipað þeim sem verða á landi. Hraunstrókarnir þeyttust 50-100 m í loft upp og streymdi glóandi hraun niður í sjó. Þannig hlóðst upp hraunbunga úr þunnum hraunlögum. Í lok apríl var hraunbungan orðin um 90 m há. Hraunið streymdi út yfir barma gígsins en einnig um göng allt í sjó fram. Þannig hafa hinir fjölmörgu hellar myndast sem nú eru þekktir í Surtsey. Hraungos varð á ýmsum stöðum með hléum, fram til 5. júní 1967, en þann dag lauk gosinu. Úfið og torfært apalhraun klæddi stóran hluta eyjarinnar en myndaði tvær megin bungur á sunnanverðri eyjunni suður af gígunum tveim sem voru virkastir. Vangaveltur um framtíð eyjarinnar hófust meðal manna, strax og eyjan reis úr sæ. Meðan Surtsey var öll gerð úr gjósku þótti líklegt að hún myndi fljótt hverfa. Vonir manna um að eyjan stæði af sér ágang sjávar um ókomin ár, glæddust þegar hraun tók að renna. Enn styrktust menn í trúnni fáum árum eftir gosið, þegar jarðfræðingurinn Sveinn Jakobsson sýndi fram á að myndun móbergs, það er hörnun gjóskunnar væri þegar hafin í Surtsey. Samlíming gjóskunnar vegna hita og efnabreytinga (myndun móbergs) veldur því að hún verður hörð sem steinsteypa og brotnar því lítið undan ágangi sjávar. Hraunið hefur hins vegar látið verulega undan ágangi sjávar.
Stærst varð eyjan í goslok, um 2,8 ferkílómetrar. Nú 30 árum síðar hefur hún minnkað um tæpan helming. Mest hefur brotnað af hrauninu á eyjunni sunnanverðri. Þegar til lengri tíma er litið má telja líklegt að hraunið hverfi alveg, en innsti kjarni móbergsfjallanna sem nú tróna á norðanverðri eyunni, standi í hundruð eða jafnvel þúsundir ára. Eyjan grær upp hröðum skrefum. Fyrstu árin eftir gosið áttu æðri plöntur erfitt uppdráttar vegna sandfoks. Fyrsta plantan sem fannst á eyjunni var fjörukál (Cakile arctica) árið 1965.

Árið 1990 höfðu alls fundist 20 tegundir plantna í Surtsey. Sumar plöntur hafa verið í sífelldri sókn, til dæmis fjöruarfi (Honkenia peploides), en aðrar hafa aðeins fundist einu sinni og síðan ekki meir. Margar tegundir lægri plantna hafa tekið sér bólfestu í Surtsey, svo sem mosar, fléttur og skófir. Einnig er dýralíf að festast í sessi og verpa þar nú að staðaldri fimm tegundir fugla. Þá er smádýralíf fjölbreytt og virðist sjálfbirgt vistkerfi hafa orðið til á meðal þeirra. Surtsey er friðlýst og er umferð þangað einungis leyfð í vísindaskyni. Vísindamenn hafa fram til þessa sótt ómetanlegar upplýsingar í þessa náttúrulegu rannsóknarstofu sem Surtsey er og munu gera um ókomna tíð. Margar rannsóknaferðir eru farnar til eyjunnar á hverju ári. Rannsökuð er meðal annars framvinda gróðurs og dýralífs, breytingar á hitastigi í hrauninu og móberginu, hörðnun gjóskunnar og myndun móbergs, niðurbrot sjávar og aðrar breytingar sem verða á eyjunni.

Sigurður Sveinn Jónsson jarðfræðingur