Eldgosið á Heimaey

 

Heimaey: Eldgosið 23. janúar 1973

Íslendingar hafa löngum verið minntir á að náttúruöflin eru óútreiknanleg og viðsjárverð. Án þess að gera boð á undan sér rifnaði jörð á Heimaey og eldur og eimyrja stigu trylltan dans. Rúmum áratug áður höfðu menn fylgst hugfangnir með því hvernig ný eyja, Surtsey, myndaðist úr iðrum jarðar, á 130 m. dýpi suðvestur af Heimaey. Nú voru menn minntir á eyðingar mátt sömu afla.
Eldgosið hófst kl. 1:45 aðfaranótt 23. janúar 1973.
Vart hafði orðið smá jarðhræringa, en einskis sem talist gat fyrirboði þeirra óskapa sem á eftir fylgdu. Til allrar mildi var flotinn í höfn, vegna þess að ekki hafði gefið á sjó, en þegar gosið hófst var veður gengið niður og gekk því greiðar en ella að flytja til lands þá 5200 eyjaskeggja sem í skyndi þurftu að yfirgefa heimili sín þessa örlagaríku nótt.
Fæstir gátu metið þann veruleika sem við blasti, svo snögg voru umskiptin.
Næstu mánuði horfðu margir á ævistarf sitt verða eldi og hrauni að bráð. Þeir sem urðu eftir á eyjunni við björgunarstörf, höfðu lítinn tíma til að hugsa um annað en eld- og hraunvarnir. Þarna fengu margir, einkum ungir karlmenn, að kljást við krefjandi verkefni, linnulítið sólarhringum saman.
Annar veruleiki beið þeirra sem dvöldu upp á landi. Þessir fyrrum húsbændur á sínum heimilum máttu nú feta stafkarlsstíg og bíða þess sem verða vildi. Enda þótt verulega hafi reynt á rósemd Eyjamanna og þolgæði við brottflutninginn, er óhætt að segja að álagið hafi aukist til muna næstu vikurnar.
Menn tóku að átta sig á atburðunum og enginn gat vitað hvort hann ætti afturkvæmt til átthaganna. Annað sem olli mönnum áhyggjum, var að hætta var á að lífæð byggðarlagsins, höfnin, lokaðist.
Þegar var hafist handa við að reyna að hafa stjórn á hraunstrauminum með varnargörðum og með því að kæla hraunið.
Nokkurn tíma tók að fá nógu öflugan dælubúnað, en ljóst varð að hraunkælingin, ásamt með öðru björgunarstarfi, átti stóran þátt í því að ekki fór ver. Surtseyjargosið stóð í fjögur og hálft ár og enginn gat vitað hvenær gosinu á Heimaey lyki. Þó er nokkuð ljóst að stærstur hluti Eyjamanna missti aldrei trúna á að þeir ættu afturkvæmt. Loðna var brædd í miðju gosi og hreinsunarstarf gekk með undraverðum hraða í goslok.
Gosinu lauk um mánaðarmótin júní, júlí 1973 og á næstu mánuðum fluttu rúmir tveir þriðju Eyjamanna aftur til heimahaganna.
Uppbygging hófst að nýju og hjól hversdagslífsins tóku að snúast eftir hremmingarnar.

Hraunkæling

Strax á fyrsta degi gossins komu prófessorarnir Þorbjörn Sigurgeirsson og Trausti Einarsson og Leó Kristjánsson jarðeðlisfræðingur. Erindi þeirra var m.a. að kanna aðstæður til að kæla hraunið niður, með því að dæla á það köldum sjó ef rennsli þess tæki þá stefnu, sem ógnaði byggðinni.
Talað var um að reyna kælingu með sjó til að hefta hraunið eða breyta stefnu þess.

Fyrsta tilraun til að hefta framrás hraunsins með vatnsdælingu var gerð tveim vikum eftir að gosið hófst, en þá var hraunið komið ískyggilega nálægt hafnarmynninu.
Slökkviliðið í Eyjum hóf að sprauta sjó á hraunjaðarinn og virtist mönnum sem vatnið hefði nokkur áhrif á hraunstrauminn. En það vantaði öflugri dælur.
Dæluskipið Sandey kom 1. mars. Því var einkum ætlað að styrkja hraunkantinn og hefta framrás Flakkarans. Áætlað er að Sandeyin hafi dælt um 400 lítrum af sjó á sekúndu upp á hrauntunguna í 30 metra hæð.
Áhrifin voru augljós, hrauntungan sem var kæld haggaðist ekki upp frá þessu þrátt fyrir að mikill þrýstingur myndaðist síðar á hana frá Flakkaranum. En menn sáu að margfalt afkastameiri dælubúnað þyrfti við sem gæti dælt vatninu í allt að tvisvar til þrisvar sinnum meiri hæð en sá sem fyrir var.
Þann 26. mars kom fyrsta sending dælubúnaðar flugleiðis frá Bandaríkjunum. Vel gekk að setja dælurnar saman og fyrsta einingin var tekin í notkun 30. mars.
Er talið að samtals hafi verið dælt 6,2 milljónum tonna af vatni. Þegar flest var unnu um 75 manns við kælinguna. Miklir örðugleikar voru við að koma leiðslum upp á glóandi hraunið og lögðu menn sig oft í hættu.
Eins og sjá má tókust aðgerðirnar vegna hraunkælingar vel.

Hvað á fellið að heita?

Fljótlega var farið að tala um nafn á nýja fellið og sýndist sitt hverjum. Lýst var eftir nafni í stuttri grein í Morgunblaðinu og tillögum rigndi inn, bæði í Eyjapistli og í lesendabréfum til dagblaðanna. Margir vildu nefna það Kirkjufell vegna Kirkjubæjanna, aðrir voru mun frumlegri og vildu nefna fellið Þrym, Gribbu, Bessa, Gám, Glám, Hroll, Spáfell eða Bæjarfell. Alls bárust á þriðja tug nafna.
Niðurstaða Örnefnanefndar var tilkynnt 24. apríl 1973.
Hið nýja eldfjall skyldi heita Eldfell. Ekki voru allir sáttir við það nafn. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur skrifaði Magnúsi Magnússyni bæjarstjóra bréf 23. janúar 1974 vegna misskilnings sem hafði komið fram í útvarpsþætti þá um daginn.
Einn bæjarstjórnarmanna hafði fullyrt að Sigurður væri í Örnefnanefnd " og þar með meðábyrgur um það ómyndarlega og rislága nafn Eldfell. ... Eldfell þýðir jú ekkert annað en vulkan, eldfjall og mér fannst óþarft að upplýsa Vestmannaeyinga um það að þetta væri eldfjall.
Sjálfur aðhylltist ég nafnið Kirkjufell, mér finnst það látlaust og eðlilegt og sögulega rétt og fara vel við Helgafell, það fjall sem raunverulega bjargaði bænum með því að varna því að sprungan lenti beint á hann."

Starfsemin í Hafnarbúðum

Strax fyrsta daginn bauð borgarráð Reykjavíkur Vestmannaeyjabæ endurgjaldslaus afnot af Hafnarbúðum svo lengi sem þörf væri á. Starfsemin þandist út á örskömmum tíma, símakerfið sprakk t.d. strax fyrstu dagana og þurfti að fjölga línum úr þremur upp í 11 auk þess sem komið var upp skiptiborði með 16 innanhússímum. Aldrei gafst tóm til að skipuleggja starfsemina.
Aðstæðurnar sköpuðu þarfirnar, oftast hraðar en hægt var að sjá þær fyrir. Þær réðu ferðinni og voru hinn raunverulegi stjórnandi starfsins. Fyrstu dagana var fólk aðallega að leita upplýsinga um hvar vinir og ættingjar voru niðurkomnir og hvort og þá hvenær þeim væri mögulegt að komast út til Eyja aftur, til þess að sækja föt og aðrar lífsnauðsynjar.
Rauði krossinn tók á móti flóttafólkinu við komuna til Reykjavíkur og kom því fyrir til bráðabirgða og útbjó tölvuskrá um dvalarstaði og símanúmer rúmlega 4000 Vestmannaeyinga. Rauði krossinn flutti alla starfsemi sína í þágu Vestmannaeyinga í Hafnarbúðir og samstarfið og samvinnan varð mikil og góð. Margir sjálfboðaliðar komu til starfa, bæði á vegum Rauða krossins og úr röðum Vestmannaeyinga. Einkum unnu margar konur sjálfboðaliðastarf. Reykvískir skólanemar lögðu einnig hönd á plóginn og fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir lágu heldur ekki á liði sínu.
Mikil ásókn var í að komast út til Eyja og Almannavarnarráð setti sérstakar reglur um ferðir fólks til Eyja. Útgáfa þessara ferðaleyfa átti eftir að verða eitt verst þokkaða og vandasamasta verkefni fólksins í Hafnarbúðum. Gefin voru út sérstök skírteini til staðfestingar á því hverjir væru Vestmannaeyingar. Þau giltu sem aðgönguseðill að allri fyrirgreiðslu sem Eyjamönnum stóð til boða og án þeirra fengu menn ekki afhenta búshluti úr móttökustöðvunum. Óskilamunir hlóðust upp og þegar farið var að flytja búslóðir til lands annaðist óskilamunadeildin þær. Útvega þurfti bifreiðir til að aka búslóðunum frá skipi og húsnæði til að geyma þær í. Flestir höfðu yfirgefið heimili sín í flýti og margir voru peningalitlir eða jafnvel peningalausir. Rauði krossinn lýsti því yfir að hluti fjárframlaga sem borist höfðu skyldi þegar varið til fólksins. Fljótlega var einnig farið að úthluta gjafafé sem barst til Hjálparstofnunnar kirkjunnar og Hjálparsjóðs Æskufólks.
Starfsfólk Bæjarsjóðs Vestmannaeyja yfirtók starfsemina fljótlega. Eyjakonur fóru þegar 25. janúar að veita kaffi í mötuneytinu. Kvenfélagið Heimaey bauð fram alla vinnu við mötuneytið nema eldamennskuna sem nemendur Hótel- og veitingaskóla Íslands sáu um fyrstu þrjár vikurnar. Leyfi ráðherra fékkst til að loka skólanum á meðan. Fjöldi máltíða á dag var oft um 600. Sjálfboðaliðum, sem unnu við móttöku búslóða, var sendur matur á vinnustaði sína. Smá saman dró úr aðsókn og umsvifin minnkuðu en mötuneytið var mikilvægur mótstaður fyrir Eyjamenn.
Húsnæðismiðlun tók þegar til starfa og skilaði góðum árangri. Fólki hafði verið komið fyrir til bráðabirgða í skólum eða hjá ættingjum. Sú staðreynd að hægt var að koma svo mörgum fyrir á einkaheimilum á örfáum klukkustundum vakti athygli víða um heim. Fljótlega varð ljóst að útvega yrði fólki betra húsnæði. Boðin voru afnot að einstaklingsherbergjum, íbúðum, sumarbústöðum og allt upp í heilu sumardvalaheimilin. Munaði þar mest um Ölfusborgir, en þar var strax þann 28. janúar búið að koma fyrir um 280 manns. Viðlagasjóður tók fljótlega frumkvæðið í húsnæðismálunum.
Atvinnumiðlunin útvegaði um 200 manns atvinnu. Rauði krossinn opnaði ráðleggingastöð í Heilsuverndarstöðinni. Einnig stuðlaði hann að starfsemi tveggja barnaheimila í samvinnu við Hjálparstofnun kirkjunnar og kom upp aðstöðu fyrir unglinga í Tónabæ.

Viðlagasjóður

Viðlagasjóður var stofnaður samkvæmt lögum 7. febrúar 1973. Alþingi kaus stjórn, en forsætisráðherra skipaði formann og varaformann. Viðlagasjóður var framkvæmdaraðili að öllum björgunar- og varnaraðgerðum í Eyjum. Það þurfti að hreinsa bæinn, lagfæra skemmdir á húseignum og bæta eigendum þeirra tjón.
Sjóðurinn greiddi einnig ýmsar skuldbindingar húseigenda s.s. afborganir og vexti. Bætur voru greiddar fyrir skemmdar og glataðar búslóðir auk tekjumissis. Af þeim 1349 fjölskyldum sem urðu að yfirgefa heimili sín í Eyjum leituðu tæpar 900 aðstoðar um húsnæði á vegum Viðlagasjóðs á 30 stöðum á landinu.
Til að flýta framkvæmdum keypti sjóðurinn 542 íbúðarhús frá Norðurlöndunum. Eftir könnun meðal Vestmannaeyinga var ákveðið hvar húsin skyldu staðsett á landinu. Einnig voru byggðar um 46 íbúðir í fjölbýlishúsum í Reykjavík og Hafnarfirði.
Viðlagasjóður tók þá ákvörðun í ágúst að flýta fyrir uppbyggingu Heimaeyjar. Það skyldi gert með því að láta hefja vinnu við að koma stærstu atvinnufyrirtækjunum af stað aftur og flytja vélar og tæki til baka. Til að flýta fyrir heimflutningi Vestmannaeyinga var ákveðið í september að greiða staðaruppbót til fólks sem komið var til baka. Frá 1. október tók bæjarstjórnin að sér hlutverk framkvæmdaaðila.