Kötlugosið fyrr og síðar.

16.10.2018

 

 

Kötlugos fyrr og síðar.

Dagskrá sunnudaginn 21. október kl. 13 í Einarsstofu í Safnahúsi.

Sjá auglýsingu.

 

 

 

 

 

Kötlugosið fyrir réttum 100 árum.

 

Kári Bjarnason:

 

Á þessari stundu og á þessum degi, þann 12. október 1918 kl. 15:30, dag nokkurn er þá bar upp á laugardag, fyrir réttum 100 árum hófst stærsta eldgos í jökli á 20. öldinni. Ein þekktasta og hættulegasta eldstöð landsins, sjálf Katla, fór af stað og stóð eldgosið í 24 daga eða fram til 4. nóvember. Sagt er að svo miklar hafi hamfarirnar verið að ströndin sunnan við Hjörleifshöfða hafi færst fram um meira en þrjá kílómetra. Gosmökkurinn náði í 25 km. hæð og dreifðist um meira en helming landsins, m.a. vitaskuld hingað til Eyja. Segir fréttaritari Morgunblaðsins í Vestmannaeyjum svo frá að sama kvöldið sem eldgosið hófst hafi „... gosið sést greinilega úr Eyjunum. Hafi glæringarnar verið svo miklar, að albjart hafi verið þau augnablikin í Eyjunum.“ Heimildir eru fyrir því að áttæringur einn sem var við fjöruborðið hafi kastast á land í gosinu og má samkvæmt því ætla að sjór hafi gengið upp með allnokkurri ölduhæð enda þótt benda verði á að á þessum tíma voru engir hafnargarðar komnir til verndar. Aðrar flóðheimildir finnast ekki en talið er að við verstu aðstæður í Kötlugosi geti sjór gengið svo á land í stórstreymsflóði að fari á Stakkagerðistúnið. Slíkt hefur þó ekki gerst enn svo vitað sé. Á tveimur ráðstefnum í Safnahúsinu verður vikið að hamförum Kötlu fyrir Vestmannaeyjar. Hin fyrri er á sunnudaginn kemur, 14. október kl. 13 í Sagnheimum, þar sem Ragnar Óskarsson og Þórólfur Guðnason munu ræða um árið 1918 í aðdraganda þess að ári síðar fékk Vestmannaeyjabær kaupstaðarréttindi. Hin síðari ráðstefnan verður réttri viku síðar, sunnudaginn 21. október kl. 13 í Einarsstofu. Þar munu Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingar ræða um afleiðingar Kötlugossins 1918 fyrir Vestmannaeyjar sem og hvers við megum vænta er Katla vaknar af sínum Þyrnirósarsvefni. Þá mun lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum, Páley Borgþórsdóttir, fjallar um viðbragð almannavarna við eldgosi í Kötlu. Á sama tíma munum við opna sýningu á hinum þekktu ljósmyndum Kjartans Guðmundssonar af Kötlugosinu 1918 ásamt ljósmynd úr fórum Gísla J. Johnsen sem sýnir Kötlugosið séð frá Eyjum. Gunnar Júlíusson hefur unnið að hreinsun og lagfæringum á Kötlusafninu og verða þær sýndar sem stækkaðar ljósmyndir. Fyrir utan það nýmæli að eiga ljósmyndir af Kötlugosinu eru varðveittar óvenjulega miklar samtímaheimildir um eldgosið og afleiðingar þess. Ein slíkra heimilda er eftir bónda úr Álftaveri, Jón Gíslason í Norðurhjáleigu. Hann var, er gosið hófst, ásamt fleiri mönnum að smala skammt frá upptökunum. Hann segir svo frá:

 

 

“Ég var einn af 7 afréttarmönnum, sem komu með safnið. Þegar við komum fram fyrir Hrísneshólm, fórum við að heyra nið í vesturátt. Í fyrstu var honum lítill gaumur gefinn, en svo fór hann smávaxandi, þar til við fórum að heyra óglögga dynki, sem urðu hærri og hærri, og loks heyrðum við drunur miklar. Vorum við þá komnir svo nærri réttinni, að við sáum, hvar menn þeir, sem þar voru, hleyptu þaðan á hestum sínum sem harðast. Í sama bili sáum við, að menn þeir, sem voru að safna úthagana, fóru austur allt hvað af tók, og stefndu þeir til Skálmabæjarhrauna. Duldist okkur nú ekki, að eitthvað óvenjulegt væri á seyði. En svo hagaði til, að við rákum safnið eftir sandlægð nokkurri, og voru hraunhálsar beggja vegna, svo við sáum ekkert til vesturs.

 

Í sama svip og við sáum til þeirra manna, er hröðuðu sér heimleiðis, varð mér litið aftur. Mun mér lengi minnisstæð sjón sú, er mér bar þá fyrir augu. Var þá að geisast fram að baki okkur jökulhlaup mikið og ægilegt, sem brunaði fram lægðina milli hraunhálsanna. Geri eg þá félögum mínum aðvart sem skjótast. Sáum við nú okkur þann kost vænstan, að yfirgefa safnið og ríða sem hraðast undan hlaupinu. Fórum við nú sem við máttum, og stefndum suður á Ljósavatnaháls. Þegar þangað kom, sáum við að hlaupið var komið austur úr Skálminni fyrir sunnan okkur; var því eigi fært að halda lengur þá leið.

 

Breyttum við þá stefnu og héldum nú í áttina til Skálmabæjarhrauna, því þar sáum við að saman voru komnir margir menn á skeri einu í vesturbrún hraunsins.

 

Hleyptum við nú hestunum á lægðina, sem er á milli Ljósuvatnanna og hraunsins, og þeystum á fleygiferð þvert yfir skurði og læki. Mátti nú varla á milli sjá, hvort okkur eða hlaupinu mundi veita betur. Þó náðum við hraunbrúninni áður en hlaupið skall á henni, en svo var það nærri komið, að það féll þá yfir slóð okkar 40 – 50 metra frá hraunbrúninni. Þessu næst héldum við til manna þeirra, er safnast höfðu í skerið. Voru þar komnir allir afréttarmenn og einnig réttarmenn þeir, er eigi höfðu komist fram yfir Skálm. Urðu menn harla fegnir, er engan vantaði.

 

Var nú haldið kyrru fyrir um stund. Köstuðu hestarnir mæðinni, en mennirnir horfðu á hlaupið, þar sem það brunaði fram með flaumi miklum og jakaferð yfir hvað sem fyrir var. Var það kolmórautt og ægilegt og lagði af því megna jöklafýlu. Ekki var vistlegt að dvelja lengi á skeri þessu, með fjölda hesta, því þar var enginn gróður, heldur sandur einn. Enda stefndi hlaupið kringum skerið suður úr grjótum fyrir vestan Skálmabæjarhraun.

 

Jafnskjótt sem við fórum úr skerinu kom hlaupið fram Kúðafljót, milli Skálmabæjarhrauna og Leiðvallar. Var ótrúlega mikið flug á því, er það kom fram fljótið. Fyllti það upp skarðið milli Leiðvallar og Hraunanna, svo að upp tók í miðjar brekkur fyrir vestan Leiðvöll. Þegar við komum til Skálmabæjarhrauna, var flóðið komið þar fast að bænum. Var það því okkar fyrsta verk að bjarga öllu úr bænum, er hægt var að flytja burtu. Gekk það vel, enda voru þar að verki um 20 karlmenn.

 

Fluttum við það upp á hraunbrún, sem er þar fyrir ofan bæinn. En heimafólk allt og aðkomumenn gisti um nóttina í fjárbúi nokkru sem er lengra uppi í hrauninu. Eigi varð okkur svefnsamt um nóttina, því margt var nú óvenjulegt. Alltaf var kolamyrkur, nema þegar eldingar komu og leiftur. En þá varð furðulega bjart. Þrumur kváðu við í sífellu og dynkir miklir. Og þess í milli heyrðist dimmur vatnaniðurinn allt í kring. Jafnan dreif vikur smágerðan og olli hann mestu um myrkrið. Þegar morgna tók, þótti vænlega horfa, að eigi hélst myrkrið, heldur birti af degi. En því kviðum við einna mest að myrkur mundi verða af öskufalli. En stormkaldi var þá kominn af austri og bægði hann öskumökknum vestur. Þegar bjart var orðið, sáum við að vatnsflóðið mundi runnið af að mestu, en eftir sátu hrannir miklar og hrikalegar jökulborgir. Fórum við nú að vitja um bæinn og hafði vatnið farið allt í kring um hann um nóttina. Nú var vatnið hlaupið, en eftir sat við húsið á stéttinni mittishá jakahrönn. Þegar við höfðum fengið okkur hressingu í Skálmabæ eftir þessa einkennilegu andvökunótt, bjuggumst við af stað heimleiðis. Létum við eftir hestana og fórum gangandi. Fórum við saman suður að Skálm. Reyndist hún vatnslítil og óðum við hana. Hélt síðan hver heim til sín sem hraðast. Urðu menn fegnir mjög komu okkar, og þótti sem við værum úr helju heimtir.
Lýk eg svo frásögu minni um Kötluhlaup þetta.“

 

Það er furðuleg mildi að manntjón varð ekki í Kötlugosinu, en skepnur féllu víða um land. Ári síðar, í júní og september 1919, voru farnar tvær rannsóknaferðir á Mýrdalsjökul og var Kjartan Guðmundsson með í báðum þeim ferðum. Tók hann fjölda mynda sem eru merkasta heimildin um hvernig umhorfs hafi verið á Mýrdalssandi eftir gosið. Eru þær ásamt ljósmyndum hans af gosmekkinum af Kötlugosinu 1918 ein af perlunum sem vistaðar eru í Safnahúsi Vestmannaeyja.

 

Hér eru birtar tvær myndir úr safni Kjartans Guðmundssonar. Hin fyrri er frægasta ljósmynd Kjartans af gosmekkinum sem minnir á atómsprengju. Síðari ljósmyndin er úr ferðalagi Kjartans og sýnir hrikaleik umbrotanna, en mennirnir sem ber við himin sjálfan eru agnarsmáir í samanburðinum.

 

Það eitt er talið öruggt um Kötlu að einn daginn mun hefjast gos þar að nýju. En um daginn og stundina veit enginn þó sumir spái og aðrir skeggræði. Svo berskjölduð sem fortíðin stóð andspænis náttúruöflunum fyrir 100 árum er spurning hvort við séum nokkuð betur í stakk búin um þessar mundir. Vera má að hinni tæknivæddu nútíð sé á sinn hátt hættara en fortíðinni.