Myndirnar tengjast allar Vestmannaeyjum

Sýning Sigurðar K. Árnasonar á laugardag 3,des í Einarsstofu

02.12.2015
 Á morgun, laugardag 5. desember kl. 13 opnar málverkasýning Sigurðar K. Árnasonar í Einarsstofu, Safnahúsi. Sýningin verður opin um helgina kl. 13-18 laugardag og sunnudag. Listamaðurinn verður sjálfur á staðnum. Sýningin verður síðan opin alla virka daga 10-18 og á laugardögum 13-16 eða á opnunartíma Safnahúss. Sýningin stendur til áramóta.
                Sigurður er fyrsta barn hjónanna Helgu Sveinsdóttur, Þórðarsonar frá Mýrum og Gamla Hrauni og Árna Magnússonar, Jónssonar, Valdasonar frá Steinum undir Austur Eyjafjöllum, en kona hans var Guðríður Jónsdóttir frá Ytri Skógum í sömu sveit.  Þau fluttu til Eyja frá Minni Borg árið 1911.  Magnús, föðurafi Sigurðar, fékkst við sjómennsku og grjóthleðslur og var kallaður „Mangi grjót“.   
                Sigurður hlakkar mikið til að koma til Eyja og sýna Eyjamönnum það sem hann hefur verið að gera í myndlist á langri ævi. Myndirnar sem Sigurður sýnir að þessu sinni tengjast allar Vestmannaeyjum og sýna margar hverja æskustöðvarnar sem nú eru komnar undir hraun.  Tengslin við Vestmannaeyjar hafa enda aldrei slitnað og sýndi hann á listahátíðinni, Dagar lita og tóna á hvítasunnu 1996. Þá gaf hann Vestmannaeyjabæ málverk eftir sig sem er góð viðbót við glæsilegt listasafn bæjarins.
 
Verið hjartanlega velkomin.
 
Listvinir Safnahúss