Vestmannaeyjar sigra

20.11.2014
Landsleikurinn "Allir lesa" hófst 17. október s.l. og lauk á miðnætti 16. nóvember. Leikurinn gengur út á að opna bók, skrá lestur á einfaldan hátt og taka þátt í skemmtilegri keppni með fjölskyldu eða félögum. Vestmannaeyjingar lásu mest allra sveitafélaga á landinu.
Í Eyjafréttum þ. 19. nóvember 2014 var, í tilefni af sigrinum, tekið stutt viðtal við Kára Bjarnason forstöðumann safnahúss en hann er jafnframt forstöðumaður Bókasafns Vestmannaeyja.
 
 
Á vefsíðunni www.allirlesa.is má finna allar upplýsingar um landsleikinn.
Vestmannaeyjingar munu vonandi standa sig jafn vel eða betur þegar keppnin fer aftur fram að ári.
 
 
Um leikinn
Allir lesa er landsleikur í lestri sem fer fram 17. október til 16. nóvember 2014 og lýkur honum því á degi íslenskrar tungu. Landsleikurinn fer aftur fram að ári, nánari dagsetningar auglýstar síðar. Þátttakendur skrá lestur sinn í lestrardagbókina á vefnum allirlesa.is og taka þátt í leiknum með því að vera í ákveðnu liði. Þau lið sem verja mestum tíma í lestur standa uppi sem sigurvegarar. Hvert lið velur liðsstjóra sem heldur utan um liðið og lestur þess. Liðsstjóri getur skráð allan lestur liðsins eða hver liðsmaður fyrir sig skráir sinn lestur. 

Það skiptir ekki máli hvernig bækur þú lest eða hvort þú lest prentaðan texta, rafbók eða hljóðbók - allar tegundir bóka eru gjaldgengar í keppninni en dagblöð og tímarit gilda ekki. Hér er átt við bækur sem innihalda til dæmis skáldskap, fræði, skýrslur eða eitthvað allt annað. 

Allir mega taka þátt! Stofnaðu lið með fjölskyldunni, vinunum, bekknum, vinnufélögunum eða hverjum sem er.

Lestrardagbókin þín verður áfram opin á vefnum eftir að keppninni lýkur 16. nóvember og þar getur þú haldið utan um eigin lestur. Þar getur þú líka tekið þátt í lestrarsamfélagi á netinu allan ársins hring með Allir lesa.