Sigurgeir Jónasson ljósmyndari 80 ára í dag.

19.09.2014
 Í dag fagnar Sigurgeir Jónasson ljósmyndari 80 ára afmæli. Hann verður að heiman með fjölskyldunni fram undir hádegi á sunnudegi en þá hefst leikur Leicester og Man. Utd.
 Við í Safnahúsinu eigum í miklu og ánægjulegu samstarfi við Sigurgeir. Er hann sem stendur í tímabundnu átaksverkefni hjá okkur við að vinna úr hinu gríðarlega ljósmyndasafni sínu sem hér er vistað. Fjöldi mynda hleypur á milljónum og er jafnvel talið stærsta ljósmyndasafn úr fórum einstaklings. Fáir eru og þeir sem ekki þekkja helstu myndir Sigurgeirs, hvort heldur það eru hinar einstöku eldingamyndir frá Surtseyjareldgosinu 1963 eða fjölmargar myndir úr Heimaeyjareldgosinu 1973 sem sjá má í nýjum Eldheimum hér í Eyjum.
 
Í tilefni dagsins flöggum við því sem við vitum best og undir þeim upp dregna gunnfána sendum við elsta starfsmanni bæjarins okkar innilegustu afmæliskveðjur með von um langt og farsælt samstarf.
 
Kári Bjarnason