Og fleira í tilefni Leyndardóma Suðurlands

Sýning Magnúsar Kristleifs Magnússonar

03.04.2014
28. mars s.l. hófst umfangsmikið kynningarátak á öllu því sem Suðurland hefur upp á að bjóða. Ýmislegt hefur verið í boði hvarvetna í landsfjórðungnum.
Safnahús hefur tekið virkan þátt í kynningunni og verið með ýmsa viðburði á dagskrá og verður það áfram.
 
Í Safnahúsi var tekið forskot á sæluna en fimmtudaginn 27. mars var opnuð sýningá verkum nemenda Steinunnar Einarsdóttir. Þá var einnig, eins og alltaf á fimmtudögum, ljósmyndasýning í Ingólfsstofu.
 
Á opnunardegi átaksins stóðu Ljósmyndasafn, Safnahús og eigendur Vöruhússins fyrir samstarfsverkefni sem fékk heitið Vöruhús minninganna. Um er að ræða að setja upp í veitingasal Vöruhússins myndir úr safninu og fá gesti til að bera kennsl á einstaklinga eða viðburði á myndunum.
 
Á laugardaginn var kvikmyndasýning í Einarsstofu. Sýnt var úrval af lifandi myndum úr safni Sigurgeirs Jónassonar.  Sighvatur Jónsson tók saman. Á eftir tók Helga Hallbergsdóttir safnstjóri Sagnheima á móti fólkinu í kaffi og sagði frá niðurstöðum rannsókna á skipsklukku sem skipverjar á Þórunni Sveinsdóttur "veiddu". Hún sýndi einnig muni sem tilheyrðu Júlíönu Sveinsdóttur og voru nýlega gefnir á safnið auk þess að opna sýninguna "Staðlausir stafir" en sú sýning mun standa í sumar.
 
Í dag kl. 12:00 á hádegi verður boðið upp á Sögu og súpu í Sagnheimum. Ásmundur Friðriksson alþingismaður ræðir um ferðamennsku og hvernig oft megi á einfaldan og skemmtilegan hátt nýta þau tækifæri og möguleika sem felast í sögu og menningu Eyjanna.
 
Kl. 13:00 - 16:00 verður, eins og alltaf, Ljósmyndadagur í Ingólfsstofu. Þar sem ljósmyndum þekktra sem óþekktra ljósmyndara á síðustu öld er varpað á tjald.
 
Kl. 16:00 er svo opnun sýningar Kristleifs Magnússonar í Einarsstofu. Sýningin er liður í átaki Listvina Safnahúss við að draga fram Vestmannaeyinga sem eru þekktir í sögu Eyjanna fyrir allt annað en listsköpun. Sýningin er unnin í samstarfi við fjölskyldu Kristleifs.
 
 
Allir hjartanlega velkomnir á alla viðburðina.