Tyrkjaránsganga og dagskrá við Skansinn.

25.07.2012
Þann 19. júlí s.l. voru rétt 385 ár liðin frá því Tyrkir yfirgáfu Vestmannaeyjar með 242 fanga innanborðs og höfðu þá myrt að minnsta kosti 36. Í minningu þess var boðið til sögugöngu á vegum Söguseturs 1627.
Komið var saman við Safnahúsið og þar sameinast í bíla suður í Brimurð. Gangan hófst stundvíslega kl. 18:15 með því að Ragnar Óskarsson kennari rakti söguna hina örlagaríku daga 17.-19. júlí  1627. Um 30 manns voru mættir í gönguna og á leiðinni út á Skans var áð við Ömpustekki, Ofanleiti og Stakkagerðistún þar sem Ragnar lýsti á lifandi hátt atburðunum með því að skírskota til staðhátta. Var sérstakt að upplifa söguna í slíku návígi.
Laust fyrir kl. 20 var gönguhópurinn kominn niður á Skans. Var það heldur á eftir áætlun og þar sem 13 manna leikhópur barna var þegar kominn ásamt foreldrum og öðrum áhagendum var brugðið á það ráð að útdeila súpu úr Vinaminni og fara með hana að leiksviðinu. Súpa hafði verið pöntuð fyrir 40 manns en þar sem um 90-100 manns var samankomið voru skipuleggendur uggandi um að ekki dygði. En ríkulega hefur verið áætlað í upphafi af þeim Arnóri og Helgu í Vinaminni því enn var afgangur eftir að allir höfðu fengið.
Dagskrá barnanna var liður í sumardagskrá Leikfélags Vestmannaeyja og heppnaðist geysivel. Var ljóst að börnin höfðu lifað sig inn í söguna og eins og Sigurður Vilhelmsson formaður Söguseturs gat um í lokaorðum sínum þá þurfti ekkert að bæta við til að sagan skilaði sér.
Af þeim sökum sem og að rigning hófst um það leyti er börnin létu af leik sínum var ákveðið að fella burtu þann kafla auglýstrar dagskrár að lesa úr Reisubók Ólafs Egilssonar er lýsti því sem hann sá 17.-19. júlí eigin augum. Í þess stað las Sigurður upp nöfn þeirra er menn vissu lifa nokkrum árum eftir tyrkjaránið og mátti skilja á þeim lestri að stærsti hlutinn af hinum herteknu Eyjabúum átti stutta ævi í barbaríinu.