Enn ein vel heppnuð dagskráin í Einarsstofu.

26.04.2012

Á sumardaginn fyrsta, þann 19. apríl sl. var opið hús í Einarsstofu í Safnahúsi. Tilefnið var að þann dag hefði Sveinn Jónsson tréskurðameistari orðið 150 ára.

 
Á veggjum mátti sjá myndir Júlíönu Sveinsdóttur, dóttur Sveins. Blaðamanni lék forvitni á að vita nánari deili á afmælisbarninu. Að sögn Kára Bjarnasonar forstöðumanns Bókasafnsins var Sveinn fæddur að Steinum undir Eyjafjöllum en byggði Sveinsstaði í Eyjum árið 1893 og bjó þar ásamt konu sinni, Guðrúnu Runólfsdóttur og 5 börnum. Sveinn og Guðrún slitu samvistir og flutti Sveinn í kjölfarið til Reykjavíkur þar sem hann varð einn stofnenda Völundar er hann var æ síðar við kenndur. „Ástæðan fyrir að við vildum minnast Sveins var að hann gaf á sínum tíma Vestmannaeyjabæ afar verðmæta bókagjöf“, segir Kári. „Við ákváðum því að þakka fyrir með þeim hætti að hafa opið hús á afmælisdeginum, fengum lánaðar myndir eftir dóttur hans, Júlíönu Sveinsdóttur, hjá Lilju Ársælsdóttur og Sveini B. Sveinssyni og sýndum hið frábæra bókasafns Sveins.“
Skemmst er frá því að segja að uppátækið tókst afar vel. Milli 70 og 80 manns mættu, sumir alla leið frá Reykjavík, og var auðséð á andlitum gestanna að menn kunnu vel að meta hugulsemi safnsins við minningu Sveins. 
Í ávarpi Kára sagði hann að hann hefðu þá um morguninn verið að lesa gögn frá Árna Árnasyni símritara vegna fyrirhugaðrar bókar sem hann og 3 aðrir væri að vinna að. Datt hann þá niður á frásögn af Sveini sem hann las upp. Frásögnin var um ferð í Álsey þar sem Sveinn kom fram sem æringi. Vakti frásögnin mikla kátínu. 
Þá kom einnig fram í máli Kára að mánudaginn 2. júlí verður haldin ráðstefna um Svein í kjkölfar ættarmóts Sveins og Guðrúnar sem verður haldið helgina á undan í Landeyjum. Kári og Leifur Sveinsson lögfræðingur hafa unnið að skipulagningu ráðstefnunnar um töluverðan tíma. Þar mun dóttir Leifs, Bergljót sem búsett er á Ítalíu, ræða um Svein og Guðrúnu, Hrafnhildur Schram listfræðingur fjalla um fyrirhugaða bók sína um Júlíönu og Kristín Bragadóttir fyrrv. forstöðumaður í Þjóðarbókhlöðunni segja frá bókamönnum fyrri tíðar.
Guðný Erla Guðnadóttir, barnabarn Lilju Ársælsdóttur, tók myndir af herlegheitunum og birtist hér ein þeirra.
 
 
Umfjöllun úr Fréttum 26. apríl 2012